Viðskiptafræðingurinn, skemmtikrafturinn og eftirherman Sólmundur Hólm Sólmundarson, betur þekktur sem Sóli Hólm, stendur í ströngu í aðdraganda jóla. Hann hyggst fylla hjörtu landsmanna af birtu og gleði á aðventunni með nýju jólasýningunni Jóli Hólm. Fyrsta sýningin er á dagskrá 24. nóvember, sléttum mánuði fyrir aðfangadag, og sú síðasta tveimur dögum fyrir aðfangadag. Tuttugu og tvær sýningar fóru í almenna sölu og þegar þetta er skrifað er þegar orðið uppselt á allar nema tvær. Þar að auki hafa nokkur fyrirtæki keypt sýningar fyrir starfsfólk sitt á tímabilinu svo ljóst er að í nægu verður að snúast hjá Sóla á aðventunni. „Þetta verður mikill álagstími en á sama tíma mjög ánægjulegur. Maður slakar svo bara vel á yfir jólin eftir þessa miklu törn,“ segir Sóli léttur.

Þetta er langt því frá fyrsta uppistandssýningin sem Sóli setur á svið. Hann segir áherslur jólasýningarinnar ekki ósvipaðar og í fyrri sýningum, sem sagt eftirhermur, grín og söngur. Tónlistin fái þó meira vægi í jólasýningunni. „Mér til halds og trausts verður píanósnillingurinn Halldór Smárason sem flestir kannast við sem hljómborðsleikarann í hljómsveitinni Albatross. Hann er mjög öflugur og hjálpar mér að stækka sýninguna og gera eitthvað aðeins annað og meira en að standa einn fyrir framan míkrafóninn og rífa upp gítarinn inn á milli. Þetta þarf að vera aðeins hátíðlegra.“

Þar sem um jólasýningu er að ræða mega áhorfendur reikna með að Sóli og Halldór flytji nær eingöngu jólalög. „Ég ætla þó ekki að fullyrða að öll lögin verði jólalög, því sýningin mun taka breytingum fram á síðasta dag og meira að segja meðan á sýningartímabili stendur. Eðli uppistands er þannig að sýningin tekur breytingum nánast eftir hverja einustu sýningu og eiginlega eru engar tvær sýningar nákvæmlega eins. Svo hefur samsetning fólksins í salnum áhrif á hvaða brandarar virka best hverju sinni,“ segir Sóli.

Hann segir fátt skemmtilegra en að „þurfa“ að semja nýtt grín fyrir nýjar sýningar. „Fólk vill sjá nýtt efni og það opnar á flóðgáttir í heilanum sem eru ekki í stöðugri notkun. Það er staður og stund til að flytja nýtt grín. Þegar maður er fenginn til að troða upp í veislum á borð við árshátíðir notar maður grín sem maður treystir og kann. Það er hættulegt að prófa nýtt grín við þessar aðstæður því á árshátíð er fólkið ekki mætt á staðinn eingöngu til að horfa á mig flytja uppistand. En á sýningum þar sem fólk borgar sig inn til að horfa á mann grínast eru áhorfendur mun móttækilegri og því hægt að prófa sig áfram og þróa nýtt grín. Það skemmtilegasta sem ég geri er að skrifa nýjar sýningar og upplifa spennuna sem fylgir því að koma fram með nýtt efni.“

Markmið Sóla tengt jólasýningunni er alls ekki flókið. Svo lengi sem fólk yfirgefur sýninguna með bros á vör og í miklu jólaskapi gengur hann sáttur frá borði.

Mikið aðventubarn

Sóli kveðst alla tíð hafa verið mikið aðventubarn. „Ég er ekki beint eins og Clark Griswold þó ég vísi í hann á plakatinu fyrir sýninguna,“ segir hann og vísar þar til fjölskylduföðurins í einni ástsælustu jólamynd allra tíma, National Lampoon‘s Christmas Vacation. „En ég er mikill aðventustrákur. Ég elska aðventuna og allt sem henni fylgir; jólalögin, undirbúninginn og bara andann sem ríkir þegar jólaljósin lýsa upp skammdegið. Ég hrífst mjög mikið með þessu öllu. Aftur á móti þegar jólin eru brostin á, aðfangadagur og allt þetta, er ég minna spenntur. Ég er ekki neikvæður gagnvart þeim tíma en hann gerir lítið fyrir mig og ég get helst ekki hlustað á jólalög eftir að aðfangadegi lýkur.“

Sóli kveðst svipað lítið spenntur fyrir jólunum sjálfum og eigin afmælum. „Ég á afmæli í júlí og því hefur afmæli aldrei þýtt neitt fyrir mig. Ég var hættur að halda upp á afmælið mitt um sjö eða átta ára aldur því það var aldrei neinn heima á þessum tíma vegna ferðalaga. Ég hef því aldrei tengt neitt við afmæli og því hreyfir það ekki við mér þegar vinir mínir þykjast vera eitthvað móðgaðir yfir því að ég gleymi afmælum þeirra. Afmæli þýða nánast ekkert fyrir mig en ég hef þó reyndar verið að taka Auðuns Blöndal-leiðina í seinni tíð og haldið partý á hnefanum. Þá sannfæri ég sjálfan mig um að þó ég eigi afmæli í júlí þá skuli ég sko halda partý og hafa gaman. Ég ætla ekki að gefast upp eins og ég gerði sem barn.“ Það nýjasta úr smiðju afmælisunnandans Auðuns er að halda upp á afmælisviku en Sóli kveðst ekki alveg vera kominn þangað. „Ég er að læra af þeim besta. Ég verð fertugur næsta sumar og fer væntanlega bara fljótlega í að bjóða í það. Það gæti vel verið að afmælishaldinu verði dreift yfir nokkra daga.“

Viðtalið birtist í heild sinni í Jólagjafahandbókinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út á dögunum.