Leikarinn Michael B. Jordan hefur sett 1.140 fermetra glæsihýsi sitt í Encino hverfinu í Los Angeles til sölu fyrir ríflega 13 milljónir dala eða um 1,9 milljarða króna. Wall Street Journal greinir frá og birtir myndir af eigninni.
Jordan festi kaup á húsinu í maí 2022 fyrir 12,5 milljónir dala. Hann hefur varið um hálfri milljón dala í að gera upp öryggis- og loftræstikerfi fasteignarinnar samkvæmt fasteignasala sem WSJ ræddi við. Hann sagðist ekki vita ástæðuna af hverju Jordan er að selja.
Glæsihýsið, sem var byggt árið 2021, er með átta svefnherbergi, líkamsrækt, heimabíó, vínherbergi, sundlaug, utandyra eldhús auk tveggja hæða gestahús.
Fasteignasalinn segir að það sem gestum þyki hvað áhugaverðast séu tvö óvenjustór fataherbergi sem tengjast aðalsvefnherberginu.
Jordan er hvað þekktastur fyrir að leika í kvikmyndunum Creed og Black Panther. Hann fer með aðalhlutverkið og leikstýrir Creed III sem verður gefin út í ár. Jordan er einnig meðstofnandi markaðsfyrirtækisins Obsidianworks.