Í kjölfar óánægju með stefnu Donalds Trump Bandaríkja­for­seta leita sí­fellt fleiri Kanada­menn suður á bóginn en ekki til Bandaríkjanna.

Í stað þess að ferðast til Flórída eða New York, velja margir nú strand­bæi Mexíkó og borgar­ferðir til Mexíkó­borgar.

Ferðir Kanada­manna til Mexíkó jukust um 15,6 pró­sent í mars miðað við sama mánuð í fyrra, á meðan ferðalög þeirra til Bandaríkjanna drógust saman um 13,5 pró­sent.

Ferðalög yfir landa­mærin í ökutæki drógust saman um þriðjung á tíma­bilinu.

„Ég held að Kanada­menn séu ein­fald­lega að velja vina­legri stefnu,“ sagði Josefina Rodrígu­ez Zamora, ferðamálaráðherra Mexíkó, í sam­tali við Financial Times. Hún bætti við að tengsl ríkjanna tveggja hefðu „styrkst og orðið eins og bræðra­lag“ síðustu misseri.

Svo virðist sem óform­legt ferða­bann Kanada­manna til Bandaríkjanna sé að festa sig í sessi.

For­saga málsins felst meðal annars í óvinsælum tolla­að­gerðum og yfir­lýsingum Trumps um mögu­lega „land­vinninga“ og harðara landa­mæra­eftir­lit, sem hafa vakið gremju meðal al­mennings í Kanada.

Flug­félög breyta um áherslur

Kana­dísk flug­félög hafa brugðist hratt við. Bæði Air Canada og Air Transat til­kynntu í vikunni um nýjar bein­tengingar til Guada­la­jara, auk tíðari ferða til Los Ca­bos og Puer­to Vallar­ta á vetrar­vertíðinni.

Á sama tíma hafa bókanir Kanada­manna á gistingum í Bandaríkjunum minnkað:

Airbnb greinir frá 27% aukningu í Mexíkó og 12% sam­drætti í Bandaríkjunum.

Booking.com segir leit að gistingu í Mexíkó­borg í apríl hafa aukist um 49% á milli ára.

Tri­vago greinir frá 20% aukningu í leitum að gistingu í Mexíkó á fyrstu þremur mánuðum ársins.

„Við sjáum stöðugan vöxt í bókunum frá Kanada og það lítur ekki út fyrir að það dragi úr þessu á meðan for­seti Trump er í em­bætti,“ segir Mc­Kenzi­e McMillan, ferðaráðgjafi í Vancou­ver.

Hann segir við­skipta­vini sína skipta Flórída og Kali­forníu út fyrir Cancún og Cabo – og New York fyrir Mexíkó­borg.

Efna­hags­leg áhrif beggja vegna landa­mæra

Sam­kvæmt ferðamála­yfir­völdum í Mexíkó skila ferða­menn um 8,6% af vergri lands­fram­leiðslu ríkisins og aukin ásókn Kanada­manna gæti reynst kær­komin í ljósi þess að Alþjóða­gjald­eyris­sjóðurinn spáir sam­drætti í hag­kerfinu 2025, m.a. vegna áhrifa tolla­stefnu Bandaríkjanna.

Hyatt, ein stærsta hótel­keðja heims, greindi nýverið frá „aukinni eftir­spurn“ eftir dvalar­staðagistingu í Suður- og Mið-Ameríku, sér­stak­lega vegna vaxandi straums Kanada­manna til Mexíkó og Karíba­hafsins.

Á sama tíma hefur ríkis­stjóri Kali­forníu, Gavin New­som, hafið aug­lýsinga­her­ferð til að endur­heimta ferða­mennina: „Kæru vinir okkar í norðri. Við erum 2.000 mílum frá Was­hington,“ sagði hann með skír­skotun til þess að stefna ríkisins væri ólík stefnu for­setans.