Í kjölfar óánægju með stefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta leita sífellt fleiri Kanadamenn suður á bóginn en ekki til Bandaríkjanna.
Í stað þess að ferðast til Flórída eða New York, velja margir nú strandbæi Mexíkó og borgarferðir til Mexíkóborgar.
Ferðir Kanadamanna til Mexíkó jukust um 15,6 prósent í mars miðað við sama mánuð í fyrra, á meðan ferðalög þeirra til Bandaríkjanna drógust saman um 13,5 prósent.
Ferðalög yfir landamærin í ökutæki drógust saman um þriðjung á tímabilinu.
„Ég held að Kanadamenn séu einfaldlega að velja vinalegri stefnu,“ sagði Josefina Rodríguez Zamora, ferðamálaráðherra Mexíkó, í samtali við Financial Times. Hún bætti við að tengsl ríkjanna tveggja hefðu „styrkst og orðið eins og bræðralag“ síðustu misseri.
Svo virðist sem óformlegt ferðabann Kanadamanna til Bandaríkjanna sé að festa sig í sessi.
Forsaga málsins felst meðal annars í óvinsælum tollaaðgerðum og yfirlýsingum Trumps um mögulega „landvinninga“ og harðara landamæraeftirlit, sem hafa vakið gremju meðal almennings í Kanada.
Flugfélög breyta um áherslur
Kanadísk flugfélög hafa brugðist hratt við. Bæði Air Canada og Air Transat tilkynntu í vikunni um nýjar beintengingar til Guadalajara, auk tíðari ferða til Los Cabos og Puerto Vallarta á vetrarvertíðinni.
Á sama tíma hafa bókanir Kanadamanna á gistingum í Bandaríkjunum minnkað:
Airbnb greinir frá 27% aukningu í Mexíkó og 12% samdrætti í Bandaríkjunum.
Booking.com segir leit að gistingu í Mexíkóborg í apríl hafa aukist um 49% á milli ára.
Trivago greinir frá 20% aukningu í leitum að gistingu í Mexíkó á fyrstu þremur mánuðum ársins.
„Við sjáum stöðugan vöxt í bókunum frá Kanada og það lítur ekki út fyrir að það dragi úr þessu á meðan forseti Trump er í embætti,“ segir McKenzie McMillan, ferðaráðgjafi í Vancouver.
Hann segir viðskiptavini sína skipta Flórída og Kaliforníu út fyrir Cancún og Cabo – og New York fyrir Mexíkóborg.
Efnahagsleg áhrif beggja vegna landamæra
Samkvæmt ferðamálayfirvöldum í Mexíkó skila ferðamenn um 8,6% af vergri landsframleiðslu ríkisins og aukin ásókn Kanadamanna gæti reynst kærkomin í ljósi þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir samdrætti í hagkerfinu 2025, m.a. vegna áhrifa tollastefnu Bandaríkjanna.
Hyatt, ein stærsta hótelkeðja heims, greindi nýverið frá „aukinni eftirspurn“ eftir dvalarstaðagistingu í Suður- og Mið-Ameríku, sérstaklega vegna vaxandi straums Kanadamanna til Mexíkó og Karíbahafsins.
Á sama tíma hefur ríkisstjóri Kaliforníu, Gavin Newsom, hafið auglýsingaherferð til að endurheimta ferðamennina: „Kæru vinir okkar í norðri. Við erum 2.000 mílum frá Washington,“ sagði hann með skírskotun til þess að stefna ríkisins væri ólík stefnu forsetans.