Eigendur hafnaboltaliðsins New York Yankees, fjárfestingasjóðurinn Main Street Advisors og einkahlutafélagið Redbird eru að kaupa ítalska knattspyrnufélagið AC Milan. Kaupverðið nemur 1,2 milljörðum evra, eða sem nemur 170 milljörðum króna, að því er kemur fram í grein Financial Times.

Eigendur New York Yankees er Steinbrenner fjölskyldan, en hún hefur átt liðið frá árinu 1973 þegar George Steinbrenner keypti félagið á 8,8 milljónir dala, en Yankees er nú 6 milljarða dala virði. Meðal fjárfesta í Main Street sjóðnum er körfuboltagoðsögnin Lebron James, listamaðurinn Drake og tónlistarframleiðandinn Jimmy Lovine.

Samkvæmt grein Financial Times munu kaupin ganga í gegn í dag, en núverandi eigandi AC Milan er bandaríski vogunarstjóðurinn Elliott Management.

Bandarískir fjárfestar og sjóðir hafa í síauknum mæli keypt sig inn í evrópsk knattspyrnufélög. Þannig eru 8 af 20 félögum ítölsku deildarinnar í eigu bandarískra aðila. Hlutfallið er svipað í ensku úrvalsdeildinni.