Sem kunnugt er hefur verið vinsælt af hálfu Íslendinga að kíkja á leiki Chelsea á Stamford Bridge. Oftar en ekki hafa starfsmenn bankanna og þeirra helstu viðskiptavinir átt þess kost að fylgjast með leikjunum úr stúku enda fjárfestu KB banki, Baugur og Bakkavör í stúkum þar. KB banki og Bakkavör voru þó sameiginlega með sína. Það duldist engum að helsta aðdráttaraflið var Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður Chelsea og fyrirliði íslenska landsliðsins. Nú er hann hins vegar búinn að gera samning við sjálfa Evrópumeistarana í Barcelóna og spurning hvort að stúkurnar hjá Chelsea missi aðdráttarafl sitt? Um leið vakna vangaveltur um það hvort að bankarnir fjárfesti í stúkum á Nou Camp (Nývangi), heimavelli Barcelóna, en sá völlur tekur um 90.000 manns og tekur því helmingi fleiri áhorfendur en Stamford Bridge. Það hefur reyndar spurst út nú þegar að eitt útibú íslensku bankanna sé búið að tryggja sér stúku en það hefur ekki verið staðfest. Í það minnsta má gera ráð fyrir að ferðum Íslendinga til Barcelóna eigi eftir að fjölga.