Í næstu viku ætlar Alexander Freyr Einarsson, sem útskrifaðist nýlega úr meistaranámi í fjármálum við MIT háskólann í Bandaríkjunum, að halda hraðnámskeið í fjármálum sem byggir á reynslu hans við skólann.
Námskeiðið verður haldið kvöldin 18. til 20. júní og er sérstaklega hugsað fyrir þá sem hafa áhuga á fjármálum fyrirtækja. Nánar má lesa um námskeiðið á facebook viðburðinum en hægt er að skrá sig með því að senda póst á póstfangið [email protected].
Megintilgangur námskeiðsins er að tengja námsefnið við raunveruleg dæmi, svokölluð „case studies", frá Harvard Business School.
Ekki verður eingöngu einblínt á tæknilegu hliðina heldur einnig hugsað um herkænsku: Hvað þarf að fara í huga þegar þú kaupir eða selur fyrirtæki? Að auki verður farið yfir íslensk dæmi - sérstaklega þá ákvörðun lífeyrissjóðanna að selja ekki Bláa Lónið til framtakssjóðsins Blackstone.
Byrjar hjá J.P. Morgan í haust
Alexander, sem starfaði áður sem blaðamaður hjá Viðskiptablaðinu og hefur störf hjá fjárfestingarbankanum J.P. Morgan í New York í haust, segist strax og námið við MIT byrjaði hafa farið að huga að því að deila þessari reynslu sinni.
„Þetta nám var algerlega ólíkt öllu sem ég hafði kynnst heima og virkilega ferskur andblær. Ég hugsaði strax með mér að þetta væri eitthvað sem ég vildi taka með mér til Íslands," segir Alexander. Hann ákvað því að halda námskeiðið og telur að það geti náð til breiðs hóps.
„Að fara í gegnum raunveruleg dæmi gefur manni aukna innsýn sem maður fær ekki endilega þegar maður lærir bara formúlurnar. Það sem ég hlakka líka mest til er að sýna hvernig framtakssjóðir ákvarða fjárfestingar sínar og nota skuldsetningu til að auka ávöxtun, þar sem sá bransi fer nú hratt vaxandi á Íslandi.“