Alrafmagnaður Kia EV3 verður frumsýndur næstkomandi laugardag hér á landi. Rafbíllinn er sá fyrsti sem Kia frumsýnir á árinu en hann er í flokki borgarjepplinga (crossover eða CUV).

EV3 var á dögunum í öðru sæti í vali á bíl ársins 2025, en hann kemur með sömu tækni og er í Kia EV9 sem nýlega vann bæði bíll ársins og rafbíll ársins hjá World Car of the Year. EV3 kemur því með tækni og akstursaðstoðarkerfum sem vanalega finnast í stærri rafjeppum.

Hann kemur með allt að 605 km drægni, 460L farangursrými og hleðslugetu frá 10-80% á 31 mínútu. EV3 er í boði með 58,3 kílówatta rafhlöðu en er einnig fáanlegur með stærri 81,4 kílówatta rafhlöðu. EV3 kemur með þreföldum breiðskjá sem felur í sér 12,3" margmiðlunarskjá, 5,3" snertiskjá fyrir loftkælingu og 12,3" LCD mælaborði og margverðlaunaðri hönnun Kia.

Streymisþjónustur, háþróuð akstursaðstoðarkerfi og þráðlausar uppfærslur bæta notendaupplifun, en EV3 er þar að auki fyrsti bíllinn sem kemur með Kia AI Assistant gervigreindartækni. Gervigreindin skilur flókin samhengi og tungumál og getur átt eðlileg samtöl við notendur. Gervigreindaraðstoð Kia getur þannig hjálpað til við skipulag á ferðalagi og leiðbeint notendum til að fá það mesta úr ferðinni.

„Það er ótrúlega spennandi að kynna þennan bíl á Íslandi. Hann er í stærð sem Íslendingar elska hvað mest og ekki skemmir fyrir að hann tikkar í öll box þegar kemur að drægni, tækni, útliti, rými og gæðum. EV3 er einnig með V2L, sem þýðir að hann getur gefið frá sér orku og þannig hlaðið önnur raftæki, eins og t.d. rafhjól, hitablásara, kaffivél, eða hvað sem kann að vera með í ferðalaginu,“ segir Kristmann Dagsson, sölustjóri Kia á Íslandi.