Kia kynnti nýjan og fjölhæfan rafbíl við hátíðlega athöfn í Tarangona á Spáni á dögunum en PV5 er 100% rafbíll með allt að 400 km drægni samkvæmt WLTP-staðli.
PV5 er fyrsti bíllinn í PBV-línu Kia sem er heildræn samgöngulausn sem sameinar sérsniðna rafbíla og háþróaðar hugmyndir bílaframleiðandans.
Þá er sagt að PBV-bílar Kia muni opna dyrnar að nýjum rekstrarmöguleikum og lífstíl með því að endurskilgreina skilning fólks á rými með háþróuðu og sérsniðnu innanrými sem veitir fullkomið frelsi og sveigjanleika.
Kia PV5 er fjölhæfur rafbíll sem verður í boði bæði sem farþegabíll og sendibíll. Hann er sérhannaður fyrir mikilvægan atvinnurekstur á borð við leigubílaakstur, flutninga og verktakavinnu með miklum möguleikum á sérsniðinni uppsetningu eftir fjölbreyttum þörfum viðskiptavina.
Í gegnum enn betri gagnatengingu milli bíla og ytri gagnaveita, svo sem fyrir upplýsingar um akstursleiðir og afhendingu, er hægt að hafa umsjón með mörgum bílum í einu sem sameinaðir eru í flota í hugbúnaði.
Tilkoma slíkra sérsniðinna atvinnubíla og sértækra PBV-lausna skilar sér í færri stöðvunum og aukinni hagkvæmni. PBV stendur fyrir Platform-Beyond-Vehicle og vísar þar í þessa nýstárlegu lausn Kia, sem getur aðlagað bílana eftir þörfum og verkefnum. Allt á sama undirvagninum.
„Með samspili skilvirkni rafmagnsafls og fordæmalauss sveigjanleika PBV-hönnunar sem ásamt tækni og nýsköpun í framleiðslu kemur hinn nýi PV5 til með að fela í sér öll okkar helstu gildi um sjálfbærar og umhverfisvænar samgöngulausnir framtíðarinnar,“ segir Ho Sung Song, forstjóri Kia.
Hinn nýi PV5 verður, eins og aðrir bílar í PBV-línu Kia, byggður á hinum háþróaða E-GMP.S undirvagni sem býður upp á breytilegar yfirbyggingar bíla. PV5 er afar tæknivæddur eins og með allt það nýjasta frá Kia í aksturs- og öryggisbúnaði. Hægt er að fullhlaða bílinn á aðeins 30 mínútum í hraðhleðslu.
„Nútímabílar eru orðnir afar flóknir en með PV5 hefur Kia sameinað háþróaðar tæknilausnir til að einfalda akstur og samgöngur fólks. Með því tökum við burt flækjustig sem snýr að persónulegum akstursþörfum fólks sem þar með hefur frelsi til að einblína á að leita uppi eigin metnað og láta eigin drauma verða að veruleika,“ segir Ho enn fremur.