Fyrst Íslendinga á LPGA

Ólafía hefur verið að rísa hratt í golfheiminum eins og flestum landsmönnum ætti nú að vera orðið kunnugt með glæstum árangri sínum nú síðast á LPGA mótaröðinni, fyrst Íslendinga. Hún virkar mjög yfirveguð yfir þessu öllu saman en segist þykja mjög vænt um það hversu mikið hefur verið fjallað um árangur hennar í íslenskum fjölmiðlum og hvað það sé mikilvægt fyrir íþróttina. „Allt í einu er allskonar fólk farið að hvetja mig áfram í golfi þó svo að það skilji ekkert út á hvað það gengur. Það er mjög notalegt að finna þennan stuðning.“ Það er óhætt að segja að Ólafía hafi byrjað ferilinn snemma en hún var aðeins níu ára gömul þegar hún fór á sitt fyrsta golfnámskeið hjá Keili í Mosfellsbæ „Mamma og pabbi sendu mig á námskeið þar sem að þau spiluðu sjálf golf, sem og eldri bræður mínir. Ég var bara eins og önnur börn, var allt í öllu, úti að leika, æfði fjálsar, sund og golf. Um tólf ára aldurinn var golfið svo komið í svona topp tvo hjá mér.“

Öllum markmiðum náð

Þegar Ólafía var í níunda bekk eða á fimmtánda ári segist hún hafa byrjað að leggja örlítið aukalega sig til þess að ná meiri árangri enda áhuginn orðinn enn meiri. „Við vorum mikið fimm stelpur saman á þessum tíma að spila golf og keppa og ég var yfirleitt í fjórða til fimmta sæti. En um leið og ég fór að taka stuttar auka æfingar fór ég að taka fyrsta til annað sætið,“segir Ólafía og brosir sínu breiðasta. En einmitt á þeim tímapunkti landaði Ólafía sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í golfi í stúlknaflokki 14 – 15 ára. Hún lækkaði forgjöfina sína um níu högg á mótinu og fór forgjöf hennar niður í 4,9. Í viðtali við www.kylfingur.is af þessu tilefni var hún spurð um markmið sín í golfinu. Svar Ólafíu var að verða betri kylfingur, fara í háskólagolf í Bandaríkjunum og komast á LPGA. Nú tíu árum síðar hefur hún náð öllum þessum markmiðum og það með glæsibrag.

Tveimur árum á undan í háskóla

Ólafíu gekk einnig vel í námi á þessum tíma og setti hún sér því það markmið komast á skólastyrk í golfháskóla í Bandaríkjunum þegar þar að kæmi. Hún vildi vera snemma í því að skoða skóla og undirbúa sig vel því að undir venjulegum kringumstæðum tekur svona ferli svolítinn tíma. Fyrir tilviljun varð Wake Forest-háskólinn í Norður-Karólínu sá skóli sem að varð fyrir valinu.  „Mér leist bara rosalega vel á hann.“
Aðeins sautján ára gömul setti Ólafía því sig í samband við skólann með hjálp föður síns. Þau náðu góðu sambandi við skólann, svo góðu að Ólafíu var boðið að koma strax á næsta skólaári þar sem að skólinn hafði misst leikmann úr liðinu sínu í atvinnumennsku og vantaði því nýjan. „Þarna var ég bara sautján ára og fyrstu viðbrögðin mín voru bara hvort ég mætti og gæti farið. Ég var bara hálfnuð með menntó. Skólinn bað mig að senda einkunnirnar mínar sem og ég gerði og þar sem ég hafði nýlokið verslunarprófi á öðru ári í Verzlunarskólanum dugði það til.“ Ólafía fór því aðeins á átjánda ári á fullum skólastyrk í drauma golfháskólann, tveimur árum á undan áætlun.

„Mamma panikaði smá og spurði mig hvort ég væri viss um að ég vildi þetta og velti því fyrir sér hvort ég væri ekki of ung. En þetta var geggjuð ákvörðun. Ég var komin með háskólagráðu tuttugu og eins árs. Pældu í því.“

Viðtalið við Ólafíu má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.