Konunglega myntsláttan í Bretlandi (The Royal Mint) hefur kynnt nýjan söfnunarpening með poppstjörnunni George Michael. Söngvarinn lést árið 2016 en goðsögnin stofnaði meðal annars hljómsveitina Wham!
Safnpeningurinn inniheldur mynd af söngvaranum með sólgleraugun sín og áletrun af hljóðupptökunni úr laginu hans Faith. Svörtu og rauðu litirnir eru einnig á hluta myntarinnar þar sem litirnir voru áberandi í gegnum ferilinn hans.
George Michael Entertainment sagði að það væri mikill heiður að enda á safnpening frá konunglegu myntsláttunni og að söngvarinn hefði verið gífurlega stoltur og snortinn af því að þjóðarstofnun skyldi hafa ákveðið að heiðra minningu hans með þessum hætti.
Myntin verður nýjasta viðbótin við tónlistarseríu myntsláttunnar, en hún hefur þegar tekið fyrir David Bowie, Elton John og Queen.