Inster er nýjasti meðlimur Suður-Kóresku Hyundai fjölskyldunnar og einnig sá minnsti. Hér er um bíl í A flokki sem býður upp á mjög marga möguleika. Bílinn sem var reynsluekinn var með sæti fyrir fjóra en einnig verður hann í boði með sæti fyrir 5. Óhætt er að segja að kostir þessa bíls séu það miklir að erfitt verður að koma þeim öllum hér að í þessum pistli. Við reynum samt.
Útlitslega er Inster sérstakur og má segja að hann sé frekar krúttlegur. Hann kemur líka á skemmtilegan hátt kunnuglega fyrir sjónir; minnir eitthvað á japönsku Kei bílana eða evrópskan smábíl frá áttunda áratug síðustu aldar.

© Auðólfur Þorsteinsson (VB MYND/Auðólfur)
Hyundai hefur á síðustu árum hannað mjög svo frumlega og skemmtilega bíla og er Inster þar enginn eftirbátur. Kringlótt framljósin eru frekar neðarlega og þar fyrir ofan stefnuljósin sem eru 7 ferningar í röð. Það er helst í þessum ferningslaga ljósum sem einkenni Hyundai sjást best en einnig er að finna fjóra ferninga í stýrinu líkt og í hinum nýja Santa Fe.
Að innan er mælaborðið skemmtilega hannað og nóg um takka fyrir þá sem það vilja. 10,25” upplýsingaskjár er í mælaborði og jafn stór snertiskjár fyrir miðjum bíl. Þar undir leynist takkaparadísin; en allar helstu skipanir hafa sinn eigin takka sem virka bæði sem flýtileiðir fyrir snertiskjáinn en einnig eru takkar fyrir sætishita og annað sem eðlilegt getur talist, þar á meðal útvarp.
Sækir innblástur í leikjamenningu
Hönnun Hyundai Inster var unnin af evrópska hönnunarteymi fyrirtækisins undir stjórn Simon Loasby, aðalhönnunarstjóra Hyundai, og Nicola Danza, ytri hönnunarstjóra í Frankfurt. Þeir þróuðu einnig hugmyndabílinn Insteroid, sem byggir á Inster og var sýndur í Seúl í SuðurKóreu fyrr á árinu. Insteroid sækir innblástur í leikjamenningu og er ætlað að höfða til yngri markhópa með framtíðarstíl og rafrænum tengingum.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.