Amal Tamimi er fædd og uppalin í Jerúsalem. Þrettán ára gömul var hún fangelsuð af Ísraelsmönnum fyrir grjótkast og sextán ára var hún gift. Árið 1995 flúði hún heimilisofbeldi eiginmanns síns og kom með börnin sín fimm til Íslands.
Kristjana Guðbrandsdóttir, rithöfundur og blaðamaður á DV, tók helgarviðtal við Amal tveimur árum. „Ég man að ég gekk út af fundi okkar í hálfgerðu uppnámi. Ég hafði setið hjá henni í tvo tíma og hlustað á hana segja frá ævi sinni. Ég vissi að ég myndi aðeins geta sagt frá brotabroti af miklu stærri sögu í þessu viðtali. Ég á það til að verða uppnumin af viðmælendum mínum, mér finnst hver og einn vera stórkostlegur. Þannig var það líka um Amal,“ segir Kristjana.
Stuttu eftir að viðtalið birtist hringdi Guðjón Ingi Eiríksson á Hólum í Kristjönu og vildi fá að vita meira um Amal. Hann spurði Kristjönu hvort hún mundi vilja skrifa sögu hennar og Kristjana sagði já. „Það sem kom mér mest á óvart við bókarskrifin er hversu miklu Amal hefur fórnað á sinni ævi. Hún fórnaði fjölmörgum árum ævi sinnar í ofbeldissambandi því hún taldi að eina leiðin fyrir börn sín væri að eiga föður og heimili. Þegar hún fann útgönguleiðina til Íslands fórnaði hún enn og aftur öllu. Hún vissi að hún gæti aldrei snúið aftur heim. Hún kom til Íslands sem menntuð kona, hafði fetað metorðastigann í Jerúsalem og starfaði sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Hér heima vissi hún að hún þyrfti að byrja líf sitt frá grunni. Hún vann baki brotnu í erfiðum störfum fyrir lág laun þar til líkaminn gat ekki meira,“ segir Kristjana.
Nánar er talað við Kristjönu í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .