Það er oft talað um Land Cruiser sem Íslandsbílinn og ekkert skrítið í raun því þessi jeppi er búinn að vera mjög vinsæll hér á landi síðustu áratugi. Nú er komin ný kynslóð af þessari goðsögn á markað og hefur bílsins verið beðið með mjög mikilli eftirvæntingu svo ekki sé meira sagt.

Saga Land Crusier spannar alls 72 ár en hún hófst 1. ágúst 1951 þegar forverinn, Toyota BJ, kom fram á sjónarsviðið. Fimmtán ár eru síðan síðasta kynslóð kom fram á markað.

Nýr Land Cruiser er gjörbreyttur í hönnun bæði að utan sem innan. Það er Retro stíll yfir hönnuninni sem er innblásin af fortíðinni.

Þessi nýja kynslóð, sú fimmta af Land Cruiser, minnir talsvert á 70 Land Cruiser bílinn sem kom á markað 1985. Fjórða kynslóðin, 150 bíllinn, hefur verið framleidd frá árinu 2009 og því var sannarlega kominn tími á breytingar. Ekki síst í ljósi þess að 150 bíllinn er áþekkur 120 bílnum, þriðju kynslóðinni, sem kom á markað 2002.

Jeppinn er með nýrri átta þrepa skiptingu og nýju rafknúnu aflstýri.
Jeppinn er með nýrri átta þrepa skiptingu og nýju rafknúnu aflstýri.
© Auðólfur Þorsteinsson (VB MYND/Auðólfur)

Með nýrri 50% stífari og sterkari grind

Í hugum flestra er Land Cruiser einn fárra alvöru jeppa en frumkrafan er að ökutækið sé byggt á grind. Það gerir jeppann nær ódrepandi en langflestir Krúserar, sem hafa verið fluttir inn til landsins eru enn á götunni, eða yfir 80% þeirra.

Nýi 250 bíllinn er byggður á nýrri tegund af grind, svipaðri þeirri sem er í 300 jeppanum sem er ekki seldur í Evrópu.

Nýja grindin er 50% sterkari og stífari en í eldri gerð og yfirbyggingin er í heild 30% stífari, sem bætir aksturseiginleika bílsins í samanburði við forverann og eykur tilfinningu ökumannsins fyrir bílnum. Grindin í þessum nýja 250 bíl er sú sama og í stóra Land Cruiser 300 bílnum eins og áður sagði.

Uppfærð 2,8 lítra dísilvél

Land Cruiser 250 er í fyrstu boðinn einungis með uppfærðri 2,8 lítra díselvélinni með túrbínu. Vélin skilar 204 hestöflum. Jeppinn er með nýrri 8 þrepa skiptingu og nýju rafknúnu aflstýri. Dráttargetan hefur verið aukin í 3.500 kg og jafnvægisstöng bílsins er nú hægt að stjórna frá mælaborði.

48V Mild Hybrid útgáfa er væntanleg á næsta ári. Þá bætist við vélina rafmótor sem hleður sig í akstrinum. Sú verður aðeins snarpari þótt engar afltölur hafi enn verið gefnar út.

Reynsluakstursbíllinn er í Luxury útgáfu. Aksturinn á þessum stóra jeppa er mjúkur og þægilegur. Aflið er prýðilegt og raunar alveg nóg. Dísilvélin í bílnum er samt jafn stór og í forveranum en það munar um átta þrepa skiptinguna og rafdrifið aflstýrið, sem hvort tveggja var ekki í eldri bílnum.

Fjöðrunin vinnur betur að takast á við ójöfnur, sérstaklega á malarvegum. Bíllinn er stöðugri og rásfastari en áður. Rafmagnssstýrið býður upp á nákvæmari stýringu en áður.

Dráttargetan hefur verið aukin í 3.500 kg og jafnvægisstöng bílsins er nú hægt að stjórna frá mælaborði.
Dráttargetan hefur verið aukin í 3.500 kg og jafnvægisstöng bílsins er nú hægt að stjórna frá mælaborði.
© Auðólfur Þorsteinsson (VB MYND/Auðólfur)

Stærri bíll og með meiri þægindi

Nýi 250 bíllinn er 9,5 sentimetrum lengri, 9,5 sentimetr sentimetrum breiðari og 2 sentimetrum hærri en forverinn. Línurnar eru harðari og meira kassalaga en áður. Það gerir hann mjög töff í útliti að mínu mati. Innanrýmið hefur breyst mjög mikið. Það er nútímalegra með meiri lúxus og þægindi en áður. Það er líka meiri tækni í boði og ekki síst í 12,3 tommu margmiðlunarskjánum. Auk þess er 12,3 tommu stafrænt mælaborð fyrir framan ökumann.

Miðjustokkurinn er hærri en í eldri gerðinni og þar eru nú komnir fleiri takkar en áður. Kælibox er í miðjustokknum á milli framsætanna í Luxury. Boðið er upp á hita og kulda í sætum bæði að framan og aftan í þeirri útgáfu bílsins.

Lék sér að leðjunni

Toyota bauð bílablaðamönnum Viðskiptablaðsins að prófa bílinn í sérstakri torfærubraut hjá Kvartmílubrautinni í Hafnarfirði. Þá kom berlega í ljós hversu öflugur torfærubíll Land Cruiser 250 er. Ekið var upp og niður brattar moldarbrekkur sem eftir rigningu nóttina áður voru orðnar hálfgerðar leðjur á köflum. Það var því mikið reynt á bílinn sem ekið var í lága drifinu þessa mjóu moldarslóða upp og niður og hallinn yfir 30 gráður á löngum köflum.

Bílinn kostar frá 16,5 milljónum upp í 25 milljónir króna. Dýrastur er First Edition bíllinn en sá kemur með öllum búnaði. Hann er að auki aðeins frábrugðinn þeim hefðbundna en hringlaga framljósin er helst vert að nefna.

Lesa má alla greinina í blaðinu Bílar, 40 síðna sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið í heild hér.