Nýtt vörumerki, Green by Iceland, verður formlega kynnt á rafrænum fundi Grænvangs og Íslandsstofu í dag klukkan 13 til 14. Er þetta liður í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs við að markaðssetja Ísland á grunni sérfræðiþekkingar í grænum lausnum sem og auka vitund um sérstöðu landsins í loftslagsmálum.
Green by Iceland er undirvörumerki Inspired by Iceland, unnið í samstarfi Grænvangs og Íslandsstofu, og mun miðla sögum um endurnýjanlega orkunýtingu og metnaðarfull loftslagsmarkmið Íslands.
Stefnt er að því að Ísland verði þekkt sem leiðandi land á sviði sjálfbærni og mun Green by Iceland gegna því hlutverki að miðla því hvernig megi samnýta þá miklu þekkingu sem til er á Íslandi í grænum lausnum og loftslagsmálum.
Nú þegar eru íslensk fyrirtæki sögð hafa skapað sér gott orðspor á þessum sviðum meðal annars með orkuskiptum í rafmagnsframleiðslu og húshitun, bæði á Íslandi og í öðrum löndum.
Vörumerkið mun leggja sérstaka áherslu á sérfræðiþekkingu Íslendinga á eftirtöldum sviðum til útflutnings:
- nýtingu jarðvarma og vatnsafls
- uppsetningu raforkumannvirkja og nýsköpun á sviði bindingar
- nýtingar og förgunar kolefnis.
Í erindi sínu á fundinum segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tækifæri víðsvegar í heiminum til að hraða breytingum og gera hluti á nýjan hátt.
„Grænvangur er vettvangurinn þar sem stjórnvöld og íslenskt atvinnulíf eiga í samstarfi og sinna því mikilvægu kynningarstarfi á erlendri grundu og kynna sérþekkingu og þann árangur sem við höfum náð í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa,“ segir Katrín.
„Við náum árangri með því að gera þetta saman. Ég óska Grænvangi innilega til hamingju með þetta verkefni og hlakka til að fylgjast áfram með því góða starfi sem hér er unnið.“
Á fundinum verður einnig kynntur til sögunnar vefurinn GreenbyIceland.com sem heldur utan um íslenskar grænar lausnir til útflutnings, upplýsingar um íslenska orkuþekkingu og nýsköpun auk hringrásarsagna úr íslensku atvinnulífi og umfjöllun um metnaðarfullt markmið Íslands um kolefnishlutleysi 2040.
Að lokum verða stuttar kynningar frá Orkuklasanum, Carbfix og Landsvirkjun, auk þess sem sendiráð Íslands í Kína, Japan, Bretlandi og Bandaríkjunum kynna tækifæri á sviði grænna lausna í viðkomandi löndum.
Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Hlutverk Grænvangs er að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Grænvangur leiðir saman íslensk fyrirtæki og stjórnvöld í innlendum aðgerðum til að ná því sameiginlega markmiði.