Það verður stór dagur hjá jeppaáhugafólki og öðrum unnendum góðra bíla á laugardaginn því þá verður nýr Land Cruiser 250 frumsýndur.

Nýr Land Cruiser er gjörbreyttur í hönnun bæði að utan sem innan. Það er Retro stíll yfir hönnuninni sem er innblásinn af fortíðinni. Þetta er fimmta kynslóð Land Cruiser en 15 ár eru síðan síðasta kynslóð kom fram á sjónarsviðið.

Land Cruiser 250 er í fyrstu boðinn með uppfærðri 2,8 lítra díselvélinni með túrbínu. Vélin skilar 204 hestöflum. Jeppinn er með nýrri 8 þrepa skiptingu og nýju rafknúnu aflstýri. Dráttargetan hefur verið aukin í 3.500 kg og jafnvægisstöng bílsins er nú hægt að stjórna frá mælaborði.

Nýi 250 bíllinn er byggður á nýrri tegund af grind, svipaðri þeirri sem er í 300 jeppanum sem er ekki seldur í Evrópu. Nýja grindin er 50% sterkari og stífari en í eldri gerð og yfirbyggingin í heild 30% stífari, sem bætir aksturseiginleika bílsins í samanburði við forverann og eykur tilfinningu ökumannsins fyrir bílnum. Nýi 250 bíllinn er 10 sentimetrum lengri, 9,5 sentimetrum breiðari og 2 sentimetrum hærri en forverinn.

Viðskiptablaðið hefur að undanförnu prófað nýja jeppann við margvíslegar aðstæður, allt frá borgarakstri til erfiðustu torfæruvega og stendur hann fyllilega undir væntingum, sem þó voru ekki litlar. Land Cruiser 250 kemur í mörgum útgáfum líkt og áður. Hann er betur búinn en áður og gerðirnar nefnast GX, GX Plus, VX, Luxury og First Edition.

Frumsýningin fer fram á laugardaginn kl. 12 – 16 hjá viðurkenndum söluaðilum Toyota í Kauptúni, Reykjanesbæ, á Selfossi og Akureyri.