Nýr og endurhannaður Hyundai Kona sportjeppi verður frumsýndur hjá Hyundai á Íslandi á laugardaginn milli 12:00-16:00. Sportjeppinn kemur í þremur útgáfum: hreinn og langdrægari rafbíll, tvinnbíll og fjórhjóladrifinn bensínbíl.

Í samanburði við fráfarandi kynslóð Hyundai Kona er nýi bíllinn í senn breiðari, lengri og hærri en áður, auk þess að hafa meira hjólhaf, sem eykur rými fyrir bæði fólk og farangur. Farangursplássið er 466 lítrar eða um 30% meira en áður.

Í rafbílnum Kona Electric er að auki 27 lítra aukarými fyrir meiri farangur undir „húddinu“. Sem dæmi um góða hagkvæmni má nefna að í Kona leggjast aftursætisbökin niður 40-20-40 og sé miðbakið lagt niður er til að mynda leikur einn að koma fyrir fjórum skíðapörum milli aftursætisfarþeganna.

Kona Electric hefur frá upphafi verið vinsælasta útfærsla þeirra þriggja gerða bílsins sem mögulegt er að velja um. Hjá Hyundai á Íslandi er Kona Electric fáanlegur í tvenns konar Comfort-útfærslu auk Style og Premium. Í Comfort er val um 48 kWh eða 65 kWh rafhlöðu en bæði Style og Premium gerðirnar eru búnar 65 kWh rafhlöðu sem hefur allt að 514 km drægni við bestu mögulegu aðstæður samkvæmt mælistaðli WLTP. Með DC hraðhleðslu (101 kW) er unnt að hlaða viðbótarorku fyrir rúmlega 160 km akstur á aðeins 15 mínútum.

Vandað er til alls frágangs í farþegarými Kona, óháð útfærslu, og er nýi bíllinn einn sá best búni í B-stærðarflokki sportjeppa. Tvískiptur 12,3 tommu upplýsinga- og afþreyingarsnertiskjár er fyrir ökumann og farþega fram í og fyrir ökumann er 12,3 tommu stafrænt mælaborð sem speglar einnig nauðsynlegustu upplýsingar á framrúðunni (HUD).

Þá er Kona einnig búinn nýju leiðsögukerfi sem getur nálgast nýjar uppfærslur eftir þráðlausum leiðum (OTA). Að auki býður Kona þann möguleika að nota síma í stað lykils til að veita aðgang að bílnum. Einnig eru allar gerðir Kona búnar vönduðu Bose-hljóðkerfi með 7 hátölurum en Premium er að auki með bassahátalara.