Mikið hefur gengið á í húsinu að Fiskislóð 73 á Granda í Reykjavík síðustu vikur og mánuði, en þar er unnið hörðum höndum að því að opna lifandi hraunsýninguna Lava Show.

Lava Show opnaði í Vík í Mýrdal árið 2018, á hundrað ára afmæli síðasta Kötlugoss, og hafa mörg hundruð þúsund manns, Íslendingar sem og erlendir ferðamenn, notið þess að fylgjast með einstöku sjónarspili glóandi hrauns og kviku síðustu fjögur árin, að því er kemur fram í tilkynningu.

Nú er komið að Reykjavík og opnar Lava Show í Reykjavík þann 1. október næstkomandi. Miðasala á Lava Show í Reykjavík hefst í dag á vefsíðunni lavashow.com.

Stofnendur Lava Show eru hjónin Júlíus Ingi Jónsson og Ragnhildur Ágústsdóttir. Miðasala á lifandi hraunsýninguna Lava Show í Reykjavík opnar í dag og ef marka má viðtökur við sýningunni í Vík má búast við miklum önnum hjá þeim hjónum næstu daga við móttöku pantanna. Þau eru hins vegar hokin af reynslu í þeim efnum og öllu vön.

„Við fengum hugmyndina að Lava Show þegar við gengum upp að eldgosinu á Fimmvörðuhálsi fyrir rúmum áratug. Sú upplifun var ógleymanleg og við vildum reyna að endurgera hana svo sem flestir fengju að njóta. Einhverjum fannst þessi hugmynd helst til brjáluð en við kýldum á það og sjáum ekki eftir því,“ segir Júlíus.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og ekkert lát á vinsældum hraunsýningarinnar. Lava Show lenti til dæmis í topp tíu í nýsköpunarkeppninni Gulleggið árið 2016, hlaut Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2021 og alþjóðlegu nýsköpunarverðlaunin Global Wiin í júlí síðastliðnum. 

Á sýningu Lava Show eru aðstæður eldgoss endurskapaðar með því að bræða alvöru hraun upp í 1100°C og hella því inn í sýningarsal fullan af fólki, upplifun sem fyrirfinnst ekki neins staðar annars staðar í heiminum í öruggu umhverfi. Júlíus útilokar ekki að sýningin vaxi enn frekar á fleiri heitum reitum í heiminum í komandi framtíð en nú á nýi sýningarstaðurinn í Reykjavík hug hans allan.

„Okkur finnst vel við hæfi að opna á nýjum stað á fjögurra ára afmæli Lava Show og getum ekki beðið eftir að leyfa gestum og gangandi að heyra snarkið í rauðglóandi hrauninu og finna hitann sem frá því stafar þegar það vellur áfram í sýningarsal okkar þar sem fyllsta öryggis er gætt. Í bland við hughrifin frá hrauninu bjóðum við upp á ýmsan fróðleik um allt sem tengist eldgosum. Þetta er án efa skemmtilegasti jarðfræðitími í heimi,“ segir Júlíus.