Fyrstu skráðu heimildirnar um golf í Skotlandi eru frá tíma James II. konungs, þegar hann bannaði golf og knattspyrnu árið 1452 þar sem það truflaði bogfimi, sem þótti mun betri íþrótt af hernaðarlegum ástæðum. Það er ekki fyrr en upp úr árinu 1700 sem golfíþróttin er tekin í sátt og fer að þróast í Skotlandi í átt að þeim leik sem við þekkjum í dag.

The Home of Golf

The Royal and Ancient Golf Club of St. Andrews var stofnaður árið 1754. Klúbburinn hefur umsjón með regluverki golfíþróttarinnar á heimsvísu ásamt Bandaríska golfsambandinu USGA. Félagsmenn R&A leika golf á St. Andrews-strandvöllunum (e. The St. Andrews Links), en St. Andrews hefur verið markaðssett undir heitinu The Home of Golf.

Gamli völlurinn í St. Andrews er talinn sá völlur þar sem golf var upphaflega leikið á 18 holu velli árið 1764. Strandvellirnir í St. Andrews eru nú alls 7 talsins, The Old Course, The New Course, Jubilee, Eden, Strathtyrum, Balgove og The Castle Course.

Gamli völlurinn (e. The Old Course) er aðalaðdráttaraflið. Völlurinn er þétt setinn og ekki einfalt að komast að til að leika hring. Þar að auki kostar einn 18 holu hringur sumarið 2024 fyrir gesti samkvæmt verðskrá 70.000 krónur. Það eru leiðir til að komast inn á völlinn gegnum viðurkennda ferðaþjónustuaðila en þá er hringurinn hluti af pakka þar sem kaupa þarf gistingu og fleira samhliða.

Sigþór Kristinn Skúlason slær upphafshögg á 18. braut.

Þar sem Bretar eru duglegir að halda í hefðir er ódýrasta og einfaldasta leiðin fyrir íslenska kylfinga sem langar að leika Gamla völlinn sú að að sækja um í rástímahappdrætti þeirra St. Andrews-manna.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu EV Golf, sem fylgdi Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér. Þar er fjallað ítarlega um hvernig best er að skrá sig í rástímahappdrættið til að leika Gamla völlinn.