Pius Okolobielu, leiðtogi Lýðveldisins Bíafra á Íslandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þjóð hans hafi ekki gefist upp í sjálfstæðisbaráttu sinni. Hann starfar sem leigubílstjóri í Reykjavík og lýsir sjálfum sér sem þegna Bíafra, frekar en Nígeríu.
Hann vill að Sameinuðu þjóðirnar sjái Bíafra-fólkinu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem íbúar gætu annaðhvort kosið að vera áfram hluti af Nígeríu eða lýst yfir eigin sjálfstæði.
Bíafra var skammlíft ríki sem klauf sig frá Nígeríu árið 1967 þegar borgarastyrjöldin byrjaði þar í landi. Nígería hafði öðlast sjálfstæði frá Bretum árið 1963 en meðan Bretar stjórnuðu landinu höfðu þeir hópað saman mismunandi ættbálkum innan landamæra Nígeríu.
Í norðurhluta landsins mátti finna múslímska Hausa-Fulani-þjóðflokkinn en meirihluti nígerska hersins var frá þessum þjóðflokki. Yarbua-þjóðflokkurinn var staðsettur í suðvesturhluta landsins þar sem finna mátti Lagos, höfuðborg Nígeríu til ársins 1991. Þeir voru jafnframt ríkasti þjóðflokkurinn. Suðausturhluti Nígeríu var aðallega samansettur af Igbo-þjóðflokknum en þar var einnig stærsti olíuforði landsins.
Eftir að Bretar yfirgáfu Nígeríu fóru þessir þjóðflokkar að rífast um það hver fengi að stjórna og hverjum yrði hleypt inn í herinn. Árið 1966 varð valdaránstilraun sem misheppnaðist og leiddi til annarrar valdaránstilraunar sem á endanum leiddi til stríðs.
Það var um þetta leyti sem undirofurstinn Chukweumeka Odumegwu Ojukwu lýsti yfir sjálfstæði héraðsins í suðurhluta Nígeríu. Landið var kallað Bíafra og dregur nafn sitt af því að vera staðsett við Bíafraflóa.
Ríkisstjórn Nígeríu brást ekki vel við þessari ákvörðun og voru margir meðlimir Igbo-þjóðflokksins kúgaðir eða drepnir. Stærstu ríki heims á þessum tíma studdu aðra hvora hliðina en það sem vekur athygli er að það hafði ekkert með kaldastríðspólitík að gera. Bæði Bretland, Bandaríkin og Sovétríkin studdu við bakið á nígersku ríkisstjórninni á meðan Bíafra naut stuðnings frá Frökkum og Kínverjum.
Ísrael var í frekar erfiðri stöðu. Stjórnvöld þar vildu viðhalda góðum samskiptum við Nígeríu þar sem meirihluti álfunnar var á móti Ísrael út af Palestínudeilunni. Hins vegar voru flestir íbúar í Ísrael hliðhollir Igbo-þjóðflokknum. Til að finna lausn á þessu tók ísraelska ríkisstjórnin þá ákvörðun að styðja báðar hliðar í stríðinu.
„Fólkið okkar hefur verið drepið fyrir að mótmæla og eru margir sem sitja enn í fangelsi.“
Stuðningurinn dugði hins vegar ekki og árið 1970 lauk stríðinu með sigri nígerska hersins sem innlimaði Biafra aftur inn í landið.
Árið 1999 byrjaði herferð sem stofnuð var af þjóðernissinnuðum Igbo-leiðtogum með það markmið að berjast fyrir sjálfstæði Biafra. Síðan þá hafa mótmæli reglulega sprottið upp víðs vegar um suðausturhluta landsins og þrátt fyrir að mótmælin hafi verið friðsæl hafa mótmælendur reglulega orðið fyrir árásum af hálfu nígersku lögreglunnar og hersins.
„Í meira en 12 ár hefur hópur okkar barist fyrir sjálfsákvörðunarrétti með friðsælum hætti. Fólkið okkar hefur verið drepið fyrir að mótmæla og eru margir sem sitja enn í fangelsi. Leiðtoga okkar hefur til að mynda verið haldið í einangrun af nígerskum yfirvöldum í meira en tvö ár. Við höfum margoft krafist að honum verði sleppt en stjórnvöld okkar neita að fara að eigin lögum,“ segir Pius.