Danska arkitekta- og nýsköpunarfyrirtækið Lendager hefur opnað stofu á Íslandi. Stofunni verður stýrt af Arnhildi Pálmadóttur arkitekt sem einnig er meðeigandi í íslenska hluta stofunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Lendager er þverfaglegt fyrirtæki í arkitektúr og mannvirkjagerð stofnað af Anders Lendager með þann yfirlýsta tilgang að ýta greininni í átt að sjálfbærni og hringrásarhagkerfi.
„Mannvirkjagerð stendur á tímamótum þar sem aðferðirnar sem við notum til að byggja mannvirki í dag munu valda um 5° hækkun á hitastigi jarðar á næstu 100 árum ef við gerum ekki breytingar á þeim, og umhverfisvottanir einar og sér duga ekki til að breyta því. Ef við ætlum að halda okkur undir 2° hækkun sem er markmið Parísarsáttmálans þá þurfum við annaðhvort að draga úr framkvæmdum, jafnvel allt að 70%, sem við getum ekki gert af mörgum ástæðum eða byggja á annan hátt og þá er sérstaklega mikilvægt að líta til endurnotkunar á efnum sem nú þegar hafa losað kolefni,“ segir í tilkynningu
Meðal verkefna Lendager er byggingin Resourcerækkene í Kaupmannahöfn þar sem notast var við endurnýtta múrsteinsveggi meðal annars úr hinni sögufrægu Carlsberg bjórverksmiðju og þeim gefið nýtt líf sem útveggir í hinum nýju byggingum ásamt endurnýtingu á timbri og stáli.
Verkefnið komst í úrslit bæði á dönsku hönnunarverðlaununum 2018 og á alþjóðlegu viðurkenndu World Architecture Festival Awards 2018. Auk þess var verkefnið tilnefnt til Mies van der Rohe verðlaunanna í arkitektúr 2022.
Í tilkynningu segir Arnhildur það mjög ánægjulegt að vera komin í samvinnu við Lendager.
„Við byggjum á þeirra reynslu og þekkingu og aðlögum hana að íslenskum aðstæðum, sem hefur mikið nýsköpunargildi hér á landi. Við höfum nú þegar hafist handa við nokkur verkefni á Íslandi og má þar nefna gistihúsi við „gullna hringinn“ úr endurnýttum efnum og byggingarafgöngum sem dæmi.“
Anders Lendager, stofnandi stofunnar, segir að markmið stofunnar sé að efni verði áfram efni en ekki úrgangur.
„Það er nýsköpun, forvitni og samræður sem drífa okkur áfram. Við þrífumst í flóknum verkefnum og viðfangsefnum sem þarf að vinna á mörkum hins mögulega. Viðfangsefni Lendager eru meðal annars arkitektahönnun, ráðgjöf um sjálfbærni, ábyrg nýting auðlinda, kortlagning á efnum og efnisstraumum og tækifæri þessu tengt í byggingariðnaði. Einnig hönnun á vörum, þróun, vottun og endurskilgreining þeirra sem nýtt efni. Markmiðið er að efni verði áfram efni en ekki úrgangur.“