Ducato MultiJet3 kemur í mörgum útfærslum og var bílnum með tvöföldu húsi reynsluekið. Bíllinn rúmar auk bílstjóra tvo farþega frammí og fjóra afturí. Vinnuflokkabílinn er hægt að fá í nokkrum útfærslum, með föstum palli eða með veltigrind. Pallurinn í þessum bíl var fastur og hægt að setja niður brettin á honum.
Auðvelt er að fella brettin niður og þá er brettið að aftan með fótstigi sem auðveldar aðgengi að pallinum. Burðargeta Ducato MultiJet3 er frá 1150-2075 kg allt eftir gerð. Hleðslufletið á pallbílnum er frá 5,6 til 8,5 m. Veltibíllinn er fáanlegur í 2 lengdum, með einföldu eða tvöföldu stýrishúsi og með palli frá 5,6 til 7,4 m.
Gott rými fyrir ökumann og farþega
Rýmið fyrir ökumann er eins og best verður á kosið í bíl sem þessum, allir stjórntakkar einfaldir og innan seilingar og þá er gott útsýni fyrir ökumann. 7” stafrænt LED mælaborð er fyrir ökumann með klassísku útliti, hraða- og snúningsmæli og mælum sem sýna eldsneytisog vatnshitastig. Í bílnum var líka Uconnect 5” skjár með útvarpi. Hliðarrúður eru rafdrifnar og er hiti í hliðarspeglum og þar er að auki stefnuljós. Hiti er í ökumannssæti og er loftpúði fyrir bílstjóra.
Bíllinn kemur með Webasto stillanlegri miðstöð. Hann er á 16” stálfelgum og með 90 lítra eldsneytistanki. Hægt er að fá Ducato með beinskiptingu sem og sjálfskiptingu sem var í reynsluakstursbílnum. Góður kraftur er í bílnum sem er með 2200 cc vél sem gefur 140 hestöfl. Með 9 gíra sjálfskiptingunni var aksturinn mjúkur.
Ducato er með rafstýrðu vökvastýri sem er staðalbúnaður í allri vörulínunni. Það gerir hann ótrúlega lipran í snúningum og fór hann auðveldlega í beygjur á hringtorgum svo varla að maður fyndi fyrir stærð bílsins, en lengd reynsluaksturbílsins er 6228 mm og er hjólhafið 4035 mm.
Miklir valmöguleikar á vélarstærðum
FIAT Ducato MultiJet3 er með nýrri vél og er hann með minni útblæstri en fyrri gerðir, en gefið er upp 186-215 CO2. Hægt verður að fá hann einnig með 100% rafmagni og er verðið á þeim bíl frá 8.935.484 krónum án VSK. E-Ducato kemur með 110 kw rafhlöðu og er drægnin 430 km og eru fyrstu bílarnir væntanlegir í mars 2025.
Hægt er að fá Ducato MultiJet3 með þremur mismunandi aflrásum auk rafmagns. Vélarnar eru 120, 140 og 180 hestafla og fáanlegar með beinskiptingu og sjálfskiptingu, allt með minni hávaða og þyngd og bestu eldsneytisnotkun í sínum flokki að sögn framleiðanda. Grunnverð Ducato MultiJet3 er 6.209.677 kr. án VSK en reynsluakstursbíllinn er á 6.870.968 kr. án VSK en með VSK er það 8.520.00 kr.
Framleiddur í 40 ár
Ducato hefur verið framleiddur í yfir 40 ár en fyrsta módelið af þessum ítalska vinnuþjarki kom á markað árið 1981. Hann var fyrst framleiddur í samvinnu við Groupe PSA, nú Stellantis, sem framleiddi samskonar sendibíla undir m.a. merkjum Peugeot og Citroën. Fjórða kynslóð Ducato kom á markað 2014 og hefur hann nú fengið uppfærslu. Fyrsti E-Ducato kom á markað 2021 og hefur hann nú fengið nýjan mótor og útlits uppfærslu.