Sigga Soffía Níelsdóttir er dansari og danshöfundur en er einnig þekkt fyrir flugeldasýningahönnun og blómalistaverk.
Síðastliðin ár hefur Sigga Soffía unnið flugeldasýningar út frá kóreógrafíu. Þá hefur hún hannað ræktanlega flugeldasýningu blóma, blómainnsetningu sem springur út eftir sáningarforskrift.
Síðustu misseri hefur Sigga Soffía verið að feta nýjar slóðir og þróað bæði drykk og ilmvatn, en flest blómin sem hún hefur verið að vinna með eru æt. Nýjasta afurðin í Eldblóma seríunni er meðal þess sem verður kynnt á sýningu hennar á Hönnunarmars og samanstendur af tveimur ísum – Eldblóma grapesorbet og kiwisorbet.
Á sýningunni fær áhorfandi innsýn í hvernig dans breytist í vín. Vínandinn er fenginn úr blóminu Chrysanthemum chispa sem er ræktað frá fræi í Espiflöt. Upphaflega prófaði Sigga Soffía bragðeiginleika allra blóma sem stóðu í blómabeðinu í Hallargarðinum og nú er drykkurinn kominn á markað, Eldblóma Elexír – hinn íslenski spritz.
„Vínandinn úr blómaelexírnum er afar dýrmætur þar sem fimm mánuði tekur að rækta blómið og ná elexírnum í flöskuna. Úr verður eintakt jarðtóna bragð sem er parað með vestfirskum rabbabara og blóðbergi sem er safnað af samtímadönsurum. Ég vil meina að það sé há prósenta af samtímadansi í drykknum enda lofum við frumlegum danshreyfingum á þriðja glasi,“ segir Sigga Soffía.
Sýningin stendur yfir dagana 23. - 27. apríl í Hönnunarsafni Íslands.
Viðtalið við Siggu Soffíu í heild sinni er að finna í blaðinu Eftir vinnu sem kom út í dag.