Samsung , Nokia og Sony eru meðal fjölda fyrirtækja, sem kynntu nýjar vörur í Barcelona í liðinni viku. Þar fór fram kaupstefnan Mobile World Congress ( MWC ), sem kalla má höfuðmessu farsímatækninnar í heiminum. Dagana og vikurnar á undan höfðu raunar ýmsir framleiðendur og þjónustuveitendur þjófstartað til þess að vekja athygli á sínu nýjasta krami og þjónustu, margir með vandlega skipulögðum „lekum“. Talið er að til MWC hafi komið liðlega 110.000 gestir frá meira en 200 löndum heims. Á þessari kaupstefnu voru meira en 2.300 fyrirtæki með bása og sýningarsvæði, en alls var um 10.000 m2 gólfflötur lagður undir sýninguna.

Stóru tíðindin á sýningunni áttu ljóslega að vera kynning nýrra flaggskipa í snjallsímalínu Samsung , Galaxy S9 og Galaxy S9 +, sem er ætlað að keppa við iPhone X frá Apple með nýjum og betri myndavélum og helstu fídusunum greinilega ætlað að jafnast á við það sem Apple býður. Jafnvel þannig Samsung var enn og aftur sakað um eftirhermur.

Móttökurnar voru því í hóflegra lagi, en kannski einnig vegna samanburðarins við Pixel 2 símann frá Google og eins bentu aðrir á að síðustu símar Apple væru mun hraðvirkari. Jafnvel hinn 2 ára gamli iPhone 7 lagði Samsung 9 í sumum hraðaprófum AnandTech . Það segir kannski sína sögu að einn umtalaðasti sími sýningarinnar var ekki einu sinni eiginlegur snjallsími, heldur nostalgísk endurgerð bananasímans 8110 frá Nokia (sjá ramma hér að neðan).

Nýr sími frá Google

Þá kynnti Google nýja síma með Android Go , einstaklega ódýra með einfaldaðri útgáfu Android . Nýir símar frá LG , ASUS og Huawei vöktu einnig verðskuldaða athygli og Alcatel kynnti nýja frambærilega línu snjallsíma á ágætu verði. Sony hleypti af stokkunum Xperia XZ2 og Xperia XZ2 Compact , sem eru bæði fallegir og sprækir, en með því sýnir Sony einnig að þar á bænum taka menn farsíma alvarlega. Aftur á móti kynntu margir asískir framleiðendur stælingar á iPhone X (allar mjög misheppnaðar). Ýmis snjöll öpp og margvísleg frumleg jaðartækni við snjallsíma leit þar dagsins ljós (sjá dálk til vinstri á síðunni).

Flestir nýju símanna eru með örgjörvum frá Qualcomm , sem að því leytinu er í ágætum málum, þó ýmislegt bjáti á á öðrum vígstöðvum fyrirtækisins. Þrátt fyrir það þykir flestum, sem það hafi vantað eitthvert fútt í nýju græjurnar allar og sumir tæknispekingar telja að hin lágstemmda sýning í Barcelona beri annað hvort vott um að snjallsímatæknin sé í hnignun, nú eða að þetta sé lognið á undan storminum; það styttist í næsta tæknistökk snjallsíma, sem hugsanlega tengist ýmsum öðrum yfirvofandi tæknibyltingum.

Beðið eftir G5

Eftirvæntingin eftir G5 – næstu kynslóð símfjarskipta – var nánast áþreifanleg á MWC ; helstu framleiðendur kepptust við að kynna framtíðaráform sín í því samhengi og umfram allt að tækni dagsins væri á einhvern hátt undir G5 búin. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn, sem það gerist, en núna er í alvöru komin tækni, sem er farin að notfæra sér G5 , þó að staðallinn sé ekki kominn í eiginlega notkun. Þó að allir hlakki til aukins hraða og bandvíddar í símfjarskiptum , þá nær G5 miklu lengra en aðeins til símanna. Á MWC voru kynntar alls kyns hugmyndir og lausnir á sviði vélvirkni , sýndarveruleika, bíla, hlutanets, innviða, afþreyingar og svo mætti lengi telja. Sumt hljómar eins og vísindaskáldskapur, en veruleikinn er ekki langt undan.