Nýr Jeep Grand Cherokee 4xe jeppi var frumsýndur hér á landi nýverið. Jeppinn kemur nú í fyrsta sinn Plug-in Hybrid útgáfu sem þýðir að hann er búinn tengiltvinnvél með bensínvél og rafmótor.
Þetta er mikil lúxuskerra sem getur margt eins og kom í ljós í reynsluakstrinum. Nýtt útlit jeppans er kraftmikið og flott.
Hið táknræna sjö raufa grill undirstrikar vöðvastælt form jeppans og gefur fyrirheit um aflið og styrkinn sem í honum býr.
Þetta er alvöru jeppi með háu og lágu drifi og farartæki sem getur ansi margt hvort sem er á malbiki eða malarvegum eins og ég prófaði í reynsluakstrinum.
Jeppinn var svo sem ekki prófaður í neinum svakalegum torfærum en hann hefur alla burði til að standa sig utan vega og er sannarlega til í tuskið ef því er að skipta.
Afbragðsgóðir aksturseiginleikar
Akstureiginleikar jeppans eru afbragðsgóðir. Þar spilar sérstök Quadra-Lift loftfjöðrunarkerfi stóra rullu en kerfið gerir ökumanni kleift að aðlaga sig að öllum aðstæðum á veginum til að auka stöðugleika í akstri. Stillanlega loftpúðafjöðrunin gerir ansi mikið fyrir aksturseiginleikana og aksturinn verður mjúkur og þægilegur fyrir vikið.
Þetta er sannkölluð lúxuskerra í akstri og þægindum. Hljóðeinangrunin er mjög góð og mun betri en í fyrri bíl finnst mér. Tvinnvélin skilar jeppanum 380 hestöflum og 637 NM í togi. Grand Cherokee er 6,3 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið sem er býsna gott fyrir svo stóran og þungan jeppa.
Hámarkshraðinn er 210 km/klst. Hægt er að komast allt að 53 km á rafmagninu áður en bensínvélin tekur við. Hægt er að ná 130 km hraða á rafmagninu einu. Jeppinn er búinn IDrive aflgjafstölvu og hægt er að velja um mismunandi virkni á inngjöfinni. Það er hægt að minnka virkni á inngjöfinni, fá snarpara upptak og einnig seinka viðbragðinu, með því að skipta á milli stillinga.
Eins og áður segir er Grand Cherokee með háu og lágu drifi sem gerir hann að alvöru jeppa. Hann er með aftengjanlegri jafnvægisstöng að framan líkt og Wrangler jeppinn, sjálfvirkri læsingu í afturdrifi og stillanlega veghæð svo það er sannarlega fullt af alvöru jeppa eiginleikum í þessum lúxusbíl.
Lúxus í innanrýminu
Nýr Grand Cherokee kemur í Summit Reserve útfærslunni og það eru ekki gerðar neinar málamiðlanir þegar kemur að lúxus í innanrýminu, með raunverulegum og náttúrulegum efnum og flottu handverki í frágangi. Ekta viður í innréttingu rammar inn lúxus innanrými í þessum jeppa.
Sætin eru úr Palermo leðri og eru bæði upphituð og loftræst. Þau bjóða upp á mikil þægindi. Það er líka nudd í sætunum sem er ákaflega þægilegt sérstaklega þegar ökumaður er stopp á rauðu ljósi og vill slaka aðeins á.
Fjallað var um bílinn í sérblaðinu Bílar, sem fylgdi Viðskiptablaðinu.