Hún hefur sýnt verk sín víða um heim og leikur sér með ólíka miðla til að kanna möguleika raunveruleikans og sýndarveruleikans. Verk hennar sýna útópískar hugleiðingar um hugsanlega veruleika, innblásnar af framtíðinni, vísindaskáldskap og tölvugrafík. Í auglýsinga- og hönnunargeiranum hefur hún unnið með vörumerkjum á borð við Gucci, Dolce & Gabbana, Adidas, Palace Skateboards og Jägermeister. Verk hennar hafa birst í tímaritum á borð við I-D Magazine og It’s Nice That.
María tekur þátt í sýningunni Rætur og rennsli á HönnunarMars 2025 í samstarfi við ítalska kaffiframleiðandann Lavazza.
María er með skrifstofu á Strik en vinnur mest sjálfstætt. „Mér finnst geggjað að fá að vinna sjálfstætt og gera nákvæmlega það sem ég vil. Ég er með svo mikið ADHD og mér finnst virka best fyrir mig að vinna eftir minni eigin klukku og á mínum eigin hraða.“
Hún viðurkennir að það sé áskorun að halda strúktúr. „Helstu áskoranirnar eru kannski að vakna á morgnana og ná einhverjum strúktúr. Ég er að reyna að setja mér einhverjar reglur og taka ekki vinnuna með mér heim.“
Hvernig finnst þér þessi markaðshlið bransans?
„Þetta er alveg smá erfitt, algoritminn vinnur ekki alltaf með manni. Ef maður er ekki stanslaust að birta eitthvað á samfélagsmiðlum þá refsar hann manni,“ útskýrir hún.
„Mér finnst samt gaman að sýna frá því sem ég er að gera ef ég er stolt af því, ég er alveg smá athyglissjúk. Mér finnst alveg gaman að einhver vilji horfa á listina mína. En ég held að maður þurfi líka að vera smá athyglissjúkur til þess að vera listamaður.“
Viðtalið við Maríu Guðjohnsen er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út í dag.
Hér er viðtalið í heild fyrir áskrifendur Viðskiptablaðsins.