Laxá í Kjós er með þekktari laxveiðiám landsins. Áin á upptök sín í Stíflisdalsvatni, sem er um 20 kílómetrum frá Laxárvogi, þar sem áin rennur til sjávar. Laxá í Kjós er laxgeng upp að hinum gullfallega Þórufossi. Erfitt er að finna fjölbreyttari laxveiðiá en Laxá í Kjós því ofarlega eru hraðir strengir, þar sem áin rennur sums staðar um gljúfur, þar fyrir neðan taka við sandeyrar. Um miðbikið hægir enn á rennslinu og áin breiðir úr sér, þar sem hún rennur um gróna grasbakka sveitarinnar, þar sem tuddar eru oft á beit. Enn neðar eru fossar og sá frægasti er Laxfoss, sem er rétt fyrir ofan Hvalfjarðarveg.

Um það bil einum kílómetra fyrir ofan ós rennur áin Bugða út í Laxá í Kjós. Bugða, sem á upptök sín í Meðalfellsvatni, er skemmtileg viðbót við veiðina í Laxá í Kjós. Bugða er nett á sem getur gefið mjög góða veiði.

Haraldur Eiríksson, eða Halli Eiríks, er landsþekktur veiðimaður, sem bæði hefur starfað sem sölustjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur og Hreggnasa. Fyrir tæpum tveimur árum venti hann sínu kvæði í kross þegar hann tók Laxá í Kjós á leigu frá og með veiðisumrinu 2021.

Haraldur á góðri stund með sonum sínum í Laxá í Kjos.
Haraldur á góðri stund með sonum sínum í Laxá í Kjos.

Með ólíkindum fjölbreytt á

Að sögn Haraldar eru til fallegri ár á Íslandi en ekki fjölbreyttari.

„Hún er með ólíkindum fjölbreytt, margslungin og síbreytileg. Þú þarft að vera mjög alhliða veiðimaður til að ná árangri og einmitt þess vegna eru nánast allir leiðsögumennirnir við ána í dag silungsveiðimenn. Það er vegna þess að silungsveiðimenn eru gjarnan mjög tæknilega góðir veiðimenn. Í Kjósinni dugir ekki bara að kasta í 45 gráður og bíða eftir að laxinn taki, þetta er aðeins flóknara, meiri pælingar.

Ein af mínum uppáhaldsám er Hofsá í Vopnafirði. Það er hin fullkomna fluguveiðiá, þar sem rekið er eiginlega allsstaðar eins, sem þýðir að þú getur beitt sömu aðferð í þrjá daga og nánast notað sömu fluguna. Það myndirðu aldrei geta í Kjósinni, aldrei nokkurn tímann.“

Fauskanesbreiðan

Spurður hver sé uppáhaldsveiðistaðurinn í Laxá í Kjós svarar Haraldur: „Það breytist á nokkurra ára fresti. Í dag er það Fauskanesbreiða. Það er vegna þess að hún er sennilega tæknilega erfiðasti veiðistaður árinnar. Hann er ofboðslega krefjandi og það þarf gríðarlega löng köst til að ná til laxanna, sem liggja gjarnan við bakkann sunnan megin. Margir horfa á stærsta grjótið í miðri ánni en hann liggur í djúpri rás meðfram suðurbakkanum og uppi á hryggnum þar. Í miklu vatni þá er þessi veiðistaður um 100 til 150 metra langur.“

Góð veiði síðustu tvö sumur

Veiðin í Laxá í Kjós hefur verið prýðileg síðustu tvö ár. Það veiddust 1.066 laxar í ánni í fyrra og 944 sumarið 2020.

„Mér finnst áin eiga meira inni. Mér finnst mörg jákvæð merki á lofti. Nú er fyrsta sumarið þar sem reynir á náttúrulegan stofn árinnar. Við slepptum ekki gönguseiðum í fyrra og það verður mjög gaman að sjá hver raunstaðan er. Landeigendur hafa reyndar verið duglegir að grafa hrogn og sleppa smáseiðum. Þrátt fyrir flóðin í vor þá er ótrúlega mikið af seiðum í ánni — hún er mjög þéttsetin undan náttúrulegri hrygningu þannig að sumarið verið spennandi á margan hátt.“

Í Káranesfljóti leynast oft stórir sjóbirtingar.
Í Káranesfljóti leynast oft stórir sjóbirtingar.
© Trausti Hafliðason (VB)

Risa sjóbirtingar

Þó Laxá í Kjós sé fyrst og síðast þekkt sem laxveiðiá þá er hún mjög góð sjóbirtingsá eins og margir veiðimenn vita raunar.

„Tvisvar síðustu þremur árum hafa stærstu fiskar árinnar verið sjóbirtingar. Í fyrra veiddist 99 sentímetra sjóbirtingur og í hittiðfyrra 101 sentímetra. Þetta segir sína sögu um sjóbirtingsstofninn í ánni. Á hverju ári fljúga veiðimenn yfir Atlantshafið frá Bretlandi til þess að veiða sjóbirting í Laxá í Kjós á besta veiðitíma. Þeir líta varla við laxinum, því þeir eru komnir til að veiða sjóbirting og halda sig mest á frísvæðinu, þar sem hann er. Fyrir þá er 15, 16 eða 17 punda sjóbirtingur fiskur lífsins.“

Viðtalið í heild má lesa í sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.