Íslenskar jólahefðir hafa verið afar sterkar þegar kemur að jólamat en flestir íslendingar borða hamborgarahrygg, hangikjöt, kalkún, purusteik, lambakjöti, villibráð eða humar yfir hátíðarnar. Þar sem flestir eru lítið að breyta út af vananum þegar kemur að aðal hráefninu ákvað Viðskiptablaðið að kynna sér hinar ýmsu tegundir meðlætis, hefðbundnu sem og óhefðbundnu en gaman getur verið að breyta örlítið til í þeirri deildinni frá ári til árs.
Með hangikjötinu:
Fyrir þá sem eru vanir að kippa rauðkálinu með í krukku af gömlum vana í búðinni gæti verið skemmtilegt skref að prófa að elda rauðkálið heima fyrir en með hangikjötinu er fátt betra en heimalagað íslenskt rauðkál. Það að gera rauðkál frá grunni er einföld aðgerð en tekur svolítinn tíma.
Rauðkál
½ rauðkálshaus
100 g smjör
2 dl púðursykur
2 dl hrásykur
2 kanilstangir
3 dl rauðvínsedik
Setjið smjörið í pott og bræðið. Skerið rauðkálið smátt og setjið í pottinn. Látið það mýkjast vel í smjörinu. Þá er sykrinum, kanilstöngunum og rauðvínsedikinu bætt út í.
Látið sjóða í 40 mínútur. Leyfið rauðkálinu að kólna á hellunni og setjið svo í krukkur.
Rauðkál með hátíðlegum ívafi
1 miðlungsstór rauðkálshaus, kjarninn fjarlægður og kálið sneitt fínt.
2 græn epli, flysjuð og skorin í teninga
2/3 dl rauðvínsedik,
1 dl sykur
2/3 dl óblönduð sólberjasaft
1/2 tsk salt
1 msk smjör
Til hátíðarbrigða er hægt að sjóða rauðkálið með 2-3 negulnöglum eða stjörnuanís ásamt 1-2 kanilstöngum.
Látið allt saman í stóran pott og hitið rólega upp, látið sjóða við vægan hita í einn og hálfan til tvo tíma. Smakkið til þegar helmingur er liðinn af suðutíma, ef kálið er of súrt þá er sykri bætt við en ef það er of sætt þá þarf að bæta við aðeins meira af edik eða sólberjasaft. Nauðsynlegt er að smakka til rauðkálið á þessum tímapunkti, þ.e. eftir hálfan suðutíma til þess að það verði gott. Þegar suðu lokið er kálið sett í krukkur, leyft að kólna aðeins og svo sett ísskáp.
Með kalkúninum:
Kalkúnn er vinsæll matur um áramótin þó svo að æ fleiri séu farnir að velja þann kostinn að elda kalkún á jólunum enda reykt kjöt eða villibráð ekki fyrir alla. Það er einstaklega margt meðlæti sem að passar með kalkúnakjöti og því um að gera að leyfa hugmyndaflugin að njóta sín þar.
Rósakál með beikoni
2 pokar frosið rósakál eða 500 gr ferskt
1 beikonbréf
Salt og pipar
2 dl hvítvín
Smjör til steikingar
Möndluflögur ef vill
Rósakál soðið eftir leiðbeiningum ef það er frosið. Ef það er ferskt þá eru endarnir fyrst skornir af rósakálinu og ystu blöðin tekin af, hver haus skorinn í tvennt, soðið í 2-3 mínútur í söltu vatni. Smjör sett á pönnu, beikon skorið í litla bita og steikt á pönnunni. Rósakáli bætt út í og steikt í smá stund og saltað og piprað. Hvítvíni hellt út á pönnuna og látið malla þar til það hefur soðið niður. Gott er strá möndluflögum yfir rósakálið áður en það er borið fram.
Gljáðar gulrætur
1 kíló gulrætur, flysjaðar og sneiddar langsum
1 dl. púðursykur
1 msk. karrí
Smjör til steikingar
Salt og pipar
Gulræturnar eru snöggsoðnar, vatninu hellt af og þær geymdar í potti. Smjör hitað á pönnu, karrí stráð út á og því næst púðursykri. Þegar púðursykurinn er bráðnaður er gulrótunum bætt út, kryddað með salti og pipar og þeim leyft að malla í blöndunni í smá stund.
Öðruvísi Waldorf salat
3-4 græn epli, flysjuð og skorin í litla bita
Góður klasi af grænum, steinlausum vínberjum, skorin í tvennt
1 stór dós ananas, skorinn í litla bita
2 dósir sýrður rjómi
Þeyttur rjómi
Valhnetur til skreytinga, má sleppa
Öllu blandað vel saman.
Með villibráðinni:
Heimalöguð rauðlaukssulta setur bókstaflega punktinn yfir i-ið þegar kemur að villibráðinni. Sultuna má hinsvegar nota með nánast öllu, lambinu, forréttunum nú og pizzunni ef því er að skipta. Svo er bara svo gaman ofsalega gaman að búa hana til sjálfur, setja í krukku og bera fram. Einnig er rauðslaukssultan skemmtileg matargjöf yfir hátíðarnar. Þessa klassísku uppskrift má finna á heimasíðinnu Krydd og krásir.
Klassísk rauðlaukssulta
2-3 msk. olía
4 rauðlaukar, skrornir í tvennt og sneiddir í þunnar sneiðar
6-8 greinar tímían
1 lárviðarlauf
3 msk. balsamikedik
2-3 msk. hrásykur
salt og pipar
Hitið olíuna í góðum potti og setjið lauk, tímían og lárviðarlauf út í . Steikið við lágan hita í olíunni þar til laukurinn er orðinn mjúkur eða í u.þ.b. 5 mínútur. Bætið balsamik-ediki og sykri út í og látið malla undir loki við lágan hita í 30 – 40 mínútur. Hrærið reglulega í lauksultunni. Saltið og pipri eftir smekk.
Fullkomið meðlæti með flestu
Eitt af því sem hefur stundum verið notað sem spari meðlæti bæði með lambalæri og purusteik er brúnkál, sem er sykurbrúnað hvítkál. Kálið passar einnig afskaplega vel með hamborgarahryggnum fyrir þá sem elda hann á jólunum.
Saxaði niður 1 lítinn hvítkálshaus
Setjið í þykkbotna pott (eða djúpa pönnu)
5 msk sykur
3 msk smjör.
Blandið öllu saman við vægan hita þar til kálið er orðið hæfilega brúnað. Þarf að gæta vel að þegar farið að brúnast svo brenni ekki við.
Uppskriftina má sjá á heimasíðunni bjarnveig.wordpress.com.
Matarbloggarinn Linda Ben sem heldur úti matarblogginu lindaben.is deildi á dögunum nokkuð skemmtilegu meðlæti sem á vel heima á nánast hvaða veisluborði sem er, með hvaða hátíðarmat sem er. Meðlætið er kannski ekki hið sanna íslenska meðlæti en það er innblásið frá Bandaríkjunum. Það er hinsvegar frábær viðbót við hefðirnar og líklegt til þess að slá í gegn hjá ungum sem og öldnum.
Sæt kartöflumús með sykurpúðum
2 stórar sætar kartöflur
salt og pipar
1/2 bolli nýmjólk
4 msk smjör
1 tsk múskat
Mini sykurpúðar
Sætu kartöflunar eru soðnar í potti þangað til þær eru soðnar í gegn.
Kartöflurnar eru skrældar og settar í hrærivélaskál.
Þá er mjólkinni blandað út í ásamt smjöri og hrært saman.
Svo er kartöflumúsin krydduð með salti, pipar og múskati.
Kartöflumúsin er svo sett í eldfast mót og litlum sykurpúðum dreift yfir. Þetta er svo látið vera inn í 180° heitum ofni í um það bil 15 mín eða þangað til sykurpúðarnir eru aðeins byrjaðir að brúnast.
Þessa kartöflumús er auðveldlega hægt er að gera daginn áður en þá er kartöflumúsinni pakkað vel inn án sykurpúðanna og geymd í ísskáp.
Njótið vel!