Keren Elazari, vinveitti hakkarinn eins og hún er kölluð, hélt erindi á UTmessunni í Hörpu sem haldin var á dögunum. Hún segist óttast hvernig lönd og ríkisstjórnir geta notað vírusa og netárásir sem vopn í efnahagslegum og stafrænum hernaði.

„Mig langaði alltaf að verða hakkari. Ég laðaðist alltaf að tækniheiminum. Þegar ég var 14 ára komst ég það að það var til fólk sem gat gert hvað sem var við tæknina. Þetta fólk var eins og töframenn. Þetta voru hakkarar. Tímamótin í lífi mínu urðu þegar ég sá Angelinu Jolie leika hakkara í kvikmyndinni Hackers. Þá varð mér ljóst að ungar konur gátu orðið hakkarar,“ segir Keren Elazari sem kom hingað til lands á vegum Origo.

Aðspurð um hverjar helstu hætturnar sem fyrirtæki standa frammi fyrir svarar hún: ,,Sumar árasirnar sem ég talaði um í fyrirlestri mínur eru árásir sem rannsakendur telja að hafi verið á vegum ríkja. Ein helsta hættan að mínu mati er hvernig lönd og ríkisstjórinir geta notað vírusa og netárásir sem vopn í efnahagslegum og stafrænum hernaði gegn hvert öðru. Ef við horfum til framtíðar til dæmis á samband Bandaríkjanna og Kína getur slíkur heimur orðið mjög spennuþrunginn sérstaklega ef annað ríkið hefur mikið vald yfir stafrænum innviðum sem hitt ríkið treystir á. Við þurfum að vera meðvituð um þetta,“ segir hún.

„Margir telja að milljarðar tækja, skynjara og örtölvur komi til með að stjórna stórum hluta lífs okkar. Sumt af því getur verið mjög gagnlegt en ég hef líka áhyggjur af áhættunni. Hér geta vinveittir hakkarar gegnt mjög virku og mikilvægu hlutverki. Mér finnst við geta notað orðið hakkari í jákvæðri merkingu. Ég er stolt af að kalla mig hakkara og fólkið sem ég vinn með. Það eru til hundruð þúsunda vinveittra hakkara sem hjálpa okkur að efla öryggisráðstafanir og þeir eru mikilvægur hlekkur ónæmiskerfi heimsins á þessari nýju tölvuöld,“ segir hún ennfremur.

Hér má sjá stutt myndband þar sem rætt er við Karen Elazari á UT messunni: