Safnast hafa tæplega 252 milljónir króna í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka sem fór fram á laugardaginn. Þetta er langhæsta upphæðin sem safnast hefur í hlaupinu til þessa.

Afraksturinn af söfnuninni rennur óskiptur til þeirra 180 góðgerðafélaga sem eru á skrá hjá Reykjavíkurmaraþoninu.

Safnast hafa tæplega 252 milljónir króna í áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka sem fór fram á laugardaginn. Þetta er langhæsta upphæðin sem safnast hefur í hlaupinu til þessa.

Afraksturinn af söfnuninni rennur óskiptur til þeirra 180 góðgerðafélaga sem eru á skrá hjá Reykjavíkurmaraþoninu.

Í tilkynningu á vef Íslandsbanka segir að gera megi ráð fyrir að bætast muni enn frekar í söfnunina í ár því hægt er að heita á hlaupara út daginn í dag, mánudaginn 26. ágúst.

Fyrra metið sem sett var í fyrra nam 199 milljónum króna. Þar á undan höfðu mest safnast 169 milljónir króna árið 2019.

Alls voru 14.646 skráðir til leiks í Reykjavíkurmaraþonið eða um rúmlega 3.000 fleiri en á síðasta ári. Uppselt var bæði í hálft maraþon og 10 km hlaup, og örfáir miðar voru eftir í heilt maraþon.

„Starfsfólk Íslandsbanka er afskaplega þakklátt öllum sem hlupu og ekki síður þeim sem lögðu sitt af mörkum til söfnunarinnar. Hlaupið sjálft fór ótrúlega vel fram og á ÍBR heiður skilinn fyrir skipulagningu þess,” segir Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka.

„Stefna Íslandsbanka er að vera hreyfiafl til góðra verka og Reykjavíkurmaraþonið er skýrt dæmi um það enda mun söfnunarféð koma að góðum notum hjá þeim fjölmörgu góðgerðafélögum sem hlaupið var fyrir.“