Kia seldi alls 56.919 bíla í Evrópu í september og hefur bílaframleiðandinn aldrei í sögunni selt fleiri bíla í septembermánuði. Salan hjá Kia jókst um 7% miðað við september í fyrra og hefur Kia nú selt alls 447.879 bíla það sem af er árinu.
Það samsvarar 5% aukningu frá því í fyrra og stefnir í metsölu hjá fyrirtækinu í ár ef svo heldur sem horfir.
Rafbílar, tengiltvinn- og tvinnbílar eru rúmlega 40% af seldum bílum Kia á árinu og er um að ræða 9,8% aukningu frá fyrra ári sem er það mesta í sögu fyrirtækisins. Mest seldu bílar Kia í september voru Sportage, Niro og Ceed-fjölskyldan.
„Mikil sala í síðasta mánuði sýnir að evrópski bílamarkaðurinn er að taka við sér á nýjan leik. Þessi góði árangur Kia sýnir gæði og áreiðanleika bíla okkar og hve mikilla vinsælda þeir njóta í Evrópu sem er afar ánægjulegt fyrir okkur,“ segir Won-Jeong Jeong, forstjóri Kia Europe.