Tveir veitingastaðir á Íslandi eru í dag með Michelin-stjörnu. Það eru Óx og Dill, sem báðir eru staðsettir í miðbæ Reykjavíkur. Dill fékk sína Michelin-stjörnu fyrst árið 2017. Staðurinn missti hana árið 2019 en endurheimti hana svo ári síðar og hefur haldið henni síðan þá. Í sumar var svo tilkynnt um að Óx hafi í fyrsta sinn hlotið Michelin-stjörnu.

Óx er ellefu sæta veitingastaður sem leggur áherslu á íslenska matargerð í bland við evrópska. Veitingastaðurinn er staðsettur í rými inn af veitingastaðnum Sumac á Laugavegi 28. Hann mun þó brátt flytja sig um set yfir á Laugaveg 55. Í þar næsta húsi, á Laugavegi 59, má svo finna hinn íslenska veitingastaðinn sem er með Michelin-stjörnu, Dill. Matreiðslan á Dill byggir á norrænni hugmyndafræði með áherslu á hráefni og hefðir frá Íslandi.

Matreiðslumeistarinn Sigurður Laufdal, sem hefur starfað á Michelin-stjörnu veitingastöðum í Danmörku og Finnlandi, segir Michelin-stjörnur Óx og Dill vera góða landkynningu. „Það er til fullt af fólki sem ferðast víða um heim til að heimsækja Michelin-stjörnu veitingastaði. Það að tveir Michelin-stjörnu veitingastaðir séu á Íslandi styrkir því stöðu íslenskrar ferðaþjónustu.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.