Samdráttur í bílasölu á síðasta ári nam um 42% miðað við sama tíma árið á undan. Kostnaður vegna rafbíla tók miklum breytingum í byrjun árs 2024 þegar ívilnanir vegna greiðslu á virðisaukaskatti féllu niður. Þá settu stjórnvöld á 6 krónu gjald fyrir hvern ekinn kílómetra fyrir hreina rafbíla og 2 krónur fyrir tengiltvinnbíla.

Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota, svarar spurningum um stöðuna á bílamarkaðnum.

Efnahagsumhverfið var þungt í fyrra, verðbólga og háir vextir. Eru fleiri skýringar á samdrætti í bílasölu árið 2024?

,,Þetta eru sjálfsagt aðalástæðurnar fyrir niðursveiflu í bílasölu. Fleira kemur þó til. Mikil sala var á rafbílum 2023 vegna þess að enn einu sinni var tilkynnt um breytingu á fyrirkomulagi styrkja vegna kaupa á rafbílum og tengiltvinnbílum sem lækkuðu um áramótin 23/24. Umtalsverð sala varð því á árinu 2023 sem hefði að óbreyttu orðið 2024,“ segir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota.

Hvernig leggst nýja árið í þig og hvenær telur þú að bílasala taki við sér?

,,Á þessu ári fögnum við því að 60 ár eru síðan fyrsta Toyotan var flutt inn. Af því tilefni bjóðum við sérkjör á rafmagns- og Plug-in bílum. Þá erum við nýbúin að frumsýna nýjan Land Cruiser 250 sem fengið hefur frábærar viðtökur. Þetta er sannkallað flaggskip flotans enda hentar þessi bíll sérstaklega vel við íslenskar aðstæður. Við búum enn við verðbólgu og háa vexti þó að útlitið sé alltaf að skána. Það er alltaf bjartara fram undan ef stjórnvöldum tekst að hafa hemil á eyðslunni og verðbólga hjaðnar þar með. Ef vextir lækka og stöðugleiki eykst mun bílamarkaðurinn að öllum líkindum fylgja á eftir og ná jafnvægi á ný.“  

Hvað skýrir samdrátt í sölu rafbíla og hvernig heldur þú að salan muni þróast í ár?

,,Ákveðin mettun hefur átt sér stað og eins og að framan er sagt þá seldist óvenju mikið 2023. Rafbílar henta ekki öllum og reikna má með að hópurinn sem þessir bílar gagnast mest hafi þegar keypt rafbíl. Við höfum mikla trú á frekari rafvæðingu bílaflotans samhliða hefðbundnum bílum en þar spilar verð stóran þátt auk uppbyggingar innviða,“ segir Úlfar að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, sérblaði Viðskiptablaðsins um bíla. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.