BL við Sævarhöfða blæs á morgun til samsýningar á nýjum bílum frá MINI og MG sem nýlega eru komnir til landsins.

Annars vegar er um að ræða frumsýningu á MINI Cooper og MINI Aceman auk Countryman, sem kynntur var fyrr á árinu, og hins vegar frumsýningu á MG3 og MG HS, en allir eiga fólksbílarnir það sameiginlegt að vera að hluta til eða öllu leyti rafdrifnir, snarpir og litríkir.

MINI Cooper E og Aceman E eru báðir 100% rafdrifnir og hafa á bilinu 285-300 km drægni samkvæmt WLTP og er hröðun þeirra úr kyrrstöðu í 100 km/klst 7,3 til 7,9 sekúndur eftir gerð.

Countryman E, sem einnig er hægt að fá fjórhjóladrifinn, hefur á bilinu 399 til allt að 462 km drægni eftir því hvor gerðin er valin og er hröðunin frá 5,6 til 8,6 sekúndur eftir gerð. Allar gerðir MINI eru mjög ríkulega búnar öryggis- og þæginda- og afþreyingarkerfum.

Hinn tengiltvinnknúni MG HS PHEV er búinn 1,5 l bensínvél og rafmótor sem saman eru 273 hestöfl. Rafhlaða MG HS PHEV skilar bílnum allt að 109 km eingöngu á rafmagni; mun lengra en margir helstu keppinautarnir á markaðnum.