Bíllinn er eins konar coupe útgáfa af XC40 jepplingnum frá Volvo, með aflíðandi þaki og 0,5 cm lægri veghæð. Bíllinn var tekinn í reynsluakstur á fallegum sumardegi og sænski bíllinn olli ekki vonbrigðum.
Framdrifsútgáfa bílsins, C40 P6, er með 69 kWh drifhlöðu en C40 P8 sem er fjórhjóladrifinn er með 78 kWh drifhlöðu. Uppgefin drægni er sambærileg, annars vegar 438 km í P6 og 450 km í P8.
Útgáfurnar eru síðan tvær, Recharge Plus og Recharge Ultimate og er staðalbúnaðurinn veglegur í Volvo C40, m.a. Panorama glerþak með lagskiptu lituðu gleri sem ver gegn útfjólubláum geislum. Þá er Nordic Climate búnaður í öllum gerðum en í honum er upphitanlegt stýri, upphitanleg framsæti og forhitari sem er fjarstýrður með appi eða á skjá.
Falleg innrétting og leðurlaust
Að innan er bíllinn hinn sami og XC40 nema hvað skreytingarlistar í C40 sýna hæðarlínur landslags og eru fallega baklýstir.
Stjórntæki bílsins eru einföld er allt er einhvern veginn til staðar eins og það á að vera. Ökumaður hefur 12,3” skjá sem m.a. hægt er að hafa Google maps, en bíllinn kemur með Android Auto stýrikerfi með Google Assistant og Google Play. Í miðjustokki er síðan 9” margmiðlunar snertiskjár.
Innanrýmið er leðurlaust og þess vegna má segja að bíll sé vegan, en það er markviss nálgun hjá Volvo í C40 að skapa umhverfi með ábyrgri nálgun. Sætin eru mjög góð og í Ultimate útgáfunni eru þau rafdrifin bæði hjá ökumanni og farþega.
Í aftursætisbekknum er fínt pláss fyrir þrjá og gólfrými gott. Ökumaður og farþegar hafa um nóg geymslurými sem og festi eiginleika að velja fyrir hina ýmsu hluti. Þar sem C40 er með aflíðandi þaki er loftplássið aðeins lægra aftur í en í XC40 en var í góðu lagi.
Nánar er fjallað um Volvo C40 Recharge í fylgiritinu Bílar sem fylgdi nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins síðastliðinn miðvikudag.