Bandarískir kjósendur fengu ekki aðeins tækifæri til að kjósa nýjan forseta í síðustu viku, heldur var einnig kosið um ótal aðrar minni háttar breytingar í ríkjum landsins. Kosið var um bæjarstjórnir, fógetaskipti og lagabreytingar innan mismunandi ríkja.

Í Missouri-ríki til að mynda fengu ríkisborgarar að kjósa um það hvort það ætti að lögleiða íþróttaveðmál og var tillagan samþykkt með 50,1% atkvæða gegn 49,9%.

Íbúar í Missouri geta því, frá og með 5. desember nk. eða 30 dögum eftir atkvæðagreiðslu, byrjað að veðja löglega á íþróttaleiki.

Aftur á móti gæti verið að staðan muni flækjast og þyrftu íbúar að bíða aðeins lengur áður en þeir geta raunverulega veðjað á sín uppáhaldsíþróttalið. Þar sem lögin voru samþykkt með mjög litlum meirihluta getur komið lagaleg andstaða frá þeim sem voru mótfallnir tillögunni.

Kansas samþykkti til að mynda íþróttaveðmál í ríkinu þann 12. maí 2022 en fyrsta veðmálið var ekki skráð fyrr en 1. september sama ár. Fjölmiðlar í Kansas City segja hins vegar að íþróttaaðdáendur í Missouri séu mikilvæg stoð í bandarískum íþróttum og vonast þeir til að hægt verði að veðja á leiki áður Ofurskálin verður á næsta ári.