Hlaðvarpið Dr. Football, stærsti fjölmiðill Kópavogs, fagnaði á dögunum 5 ára afmæli sínu á Café Catalínu í Hamraborg.
Hjörvar Hafliðason stofnaði Dr. Football, stærsta fjölmiðil Kópavogs, haustið 2018.
Ljósmynd: Aðsend mynd
Deila
Knattspyrnuhlaðvarpið Dr. Football varð nýverið fimm ára og af því tilefni bauð Hjörvar Hafliðason, stofnandi, þáttarstjórnandi og eigandi hlaðvarpsins, til afmælisfagnaðar á Café Catalínu í Hamraborg síðastliðinn föstudag.
Húsfyllir var á Catalínu og var öllum leikmönnum boðið, „alveg sama hvort þeir séu góðir, slakir, áhugaverðir, magnaðir, vanmetnir, metnaðarfullir, sérstakir eða spes. Húsið er opið leikmönnum sama hvar þeir standa í leiknum,“ eins og sagði í afmælisboði hins óttalausa leiðtoga Dr. Football safnaðarins.
Spéfuglinn Sóli Hólm hélt uppi fjörinu á sinn einstaka hátt, ásamt því sem Hjörvar ávarpaði söfnuð sinn við mikinn fögnuð viðstaddra og kynnti um leið nýja ásýnd Dr. Football.
Þá steig landsþekkt tónlistarfólk á stokk en þar á meðal var Háski, Joe Fraizer, sem Doktorinn lýsir sem hinum eina sanna miðbæjarlistamanni Kópavogs og ClubDub.
Hér að neðan má nálgast myndaveislu frá fimm ára afmæli stærsta fjölmiðils Kópavogs.
Arsenalmaðurinn Jón Kári Eldon stillti sér upp ásamt Doktornum.
KR-ingurinn Sigurður Helgason varð fyrsti maðurinn til að hljóta heiðursverðlaun Dr. Football. Siggi á langan þjálfunarferil að baki og er hafsjór af fróðleik um knattspyrnu.
Sigurjón Jónsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherrans Willums Þórs Þórssonar, ásamt Viktori Unnari Illugasyni, fyrrverandi atvinnumanni í knattspyrnu og núverandi knattspyrnuþjálfara.
Gunnar Birgisson, Sigurður Gísli Bond Snorrason, Sigurjón Jónsson, Ingólfur Sigurðsson og Arnar Sveinn Geirsson hafa í ófá skipti mætt sem gestastjórnendur í Dr. Football. Þeir skemmtu sér konunglega í afmælinu.
Afmælisgestir sem klikkuðu á að kíkja í klippingu fyrir afmælishátíðina þurftu ekki að örvænta því Doktorinn sá til þess að þeir gætu fengið ferskt „fade“ á staðnum.