Tæplega 100 manns mættu á morgunverðarfund Keystrike í gær en þar var meðal annars rætt um netárásir óvinveittra ríkja á innviði Vesturlanda.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnaði fundinn og lagði áherslu á mikilvægi þess að verja mikilvæga innviði gegn netárásum í breyttum heimi.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hann benti á að á alþjóðavettvangi hafi áherslan færst frá orkuskiptum yfir í verndun innviða og tryggingu afhendingaröryggis raforku.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sóley Kaldal, áhættustýringar- og öryggisverkfræðingur, fjallaði um þróun þjóðaröryggis á Íslandi og hvernig hefðbundin nálgun, byggð á landfræðilegri einangrun og friðelskandi sjálfsmynd þjóðarinnar, eigi ekki lengur við í stafrænum heimi.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hún sagði stafræna innviði standa frammi fyrir miklum ógnum en jafnframt að Íslendingar væru í kjörstöðu til að standa framarlega á sviði netöryggis og að netvarnir gætu orðið mikilvægur þáttur sem framlag Íslands til varnarmála á heimsvísu.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Jack Fay, kapteinn í bandaríska sjóhernum og varnarfulltrúi í bandaríska sendiráðinu, sýndi fundargestum hvernig NATO og bandaríski herinn horfa á netöryggi og hið viðamikla hlutverk sem stafrænir innviðir gegna þegar kemur að samskiptum og stýringu varnarkerfa.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Dr. Ýmir Vigfússon, tæknistjóri Keystrike og dósent við Emory-háskóla í Bandaríkjunum, útskýrði hvernig óvinveitt þjóðríki nýta netárásir gegn lykilinnviðum á Vesturlöndum, hvaðan ógnirnar koma og þær fjölmörgu leiðir sem netþrjótar nota til að komast inn í tölvur og tölvukerfi.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hann nefndi ríki á borð við Rússland, Norður-Kóreu, Íran og Kína, sem eru með skipulögð teymi netþrjóta sem oftar en ekki eru hluti af her viðkomandi landa til að brjótast inn í innviði annarra þjóða með það að markmiði að valda gríðarlegum skaða og glundroða.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Að lokum fjallaði Ýmir um helstu viðbrögð og varnir við þessum ógnum og kynnti netöryggislausn Keystrike, sem er einkaleyfisvarin og einstök á heimsvísu enda kemur hún í veg fyrir að tölvuþrjótar geti valdið skaða eftir að innbrot heppnast.