Góðgerðaruppboð FKA fór fram í Gallerí Fold til styrktar UN Women Íslandi á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars. Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA stóð fyrir uppboðinu undir nafninu „Fjárfestum í konum” þar sem ágóðinn rann óskiptur til verkefna UN Women á heimsvísu.
Kynnir kvöldsins, Svanlaug Jóhannsdóttir, hvatti öll viðstödd til að opna veskin með góðum húmor og uppboðshaldarinn Jóhann Hansen sá um sjálft uppboðið.
Tæplega 900 þúsund krónur söfnuðust fyrir UN Women á Íslandi.
„Það var hvetjandi að sjá svona margar konur koma saman til að styðja hverja aðra, hafa gaman en í senn hafa góð áhrif á samfélagið. Þessi viðburður hefði ekki orðið nema með rausnarlegum gjöfum frá Gallerí Fold, Arion banka, Coca Cola á Íslandi og öllu því frábæru listafólki sem gáfu verkin sín,“ sagði Kristjana Thors Brynjólfsdóttir frá Alþjóðanefnd FKA.