Það var árið 1934 sem Guðmundur S. Guðmundsson, vélstjóri og verkstjóri í vélsmiðjunni Héðni, hafði forgöngu um að safna saman 12 manna hópi til að stofna fyrirtæki sem framleiddi garn og net úr náttúrulegum hamptrefjum. Helsta ástæðan var skortur á efnum til veiðarfæragerðar.
Stofnendurnir voru flestir nátengdir fiskveiðum, skipstjórar og vélstjórar, og höfðu því hagsmuna að gæta. Þeir sem lögðu fram hlutaféð auk Guðmundar voru Jón Guðlaugsson vélsmiður, Guðmann Hróbjartsson vélstjóri og skipstjórnarmennirnir Hannes Pálsson, Halldór Gíslason, Bergþór Teitsson, Vilhjálmur Árnason, Jóhann Stefánsson, Kristján Kristjánsson, Jón Björn Elísson og Sigurjón Einarsson ásamt prentsmiðjustjóranum Gunnari Einarssyni og verslunarmanninum Frímanni Ólafssyni.
Um ári eftir stofnun Hampiðjunnar voru framleiðsluvörur félagsins komnar alfarið í notkun í stað innflutts garns og fiskilínu. Það reyndi þó mest á framleiðsluna í seinna stríðinu og fram til 1948 en þá sá Hampiðjan öllum íslenska fiskiskipaflotanum fyrir veiðarfæraefnum.
Árin sem komu þar á eftir urðu félaginu afar erfið því mikið framboð var á innfluttu niðurgreiddu garni og línum á meðan efni Hampiðjunnar var hátt tollað. Á þeim tíma var tvöföld gengisskráning og nutu sjávarútvegsfyrirtæki hagstæðara gengis en önnur fyrirtæki og leið iðnaðurinn mjög fyrir þetta fyrirkomulag.
Í dag er Hampiðjan með starfsemi á 52 stöðum í 21 landi og með um 2.000 starfsmenn. Höfuðstöðvarnar eru við Skarfabakka í Sundahöfn en þar eru aðalskrifstofurnar, netaverkstæði og aðallager fyrirtækisins á Íslandi. Hjarta framleiðslunnar á vörum fyrirtækisins er Hampidjan Baltic í Litháen, þar sem framleiddir eru þræðir, hnýtt net og fléttaðir ofurkaðlar ásamt framleiðslu á fullbúnum veiðarfærum.