Útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 2024 koma í hlut Kerecis. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Guðmundi Fertram Sigurjónssyni, stofnanda og forstjóra fyrirtækisins, verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Fjöldi starfsmanna og annarra sem tengjast Kerecis voru viðstaddir athöfnina, meðal annars Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti lýðveldisins og fyrrverandi stjórnarmaður Kerecis.
Samhliða voru heiðursverðlaun Útflutningsverðlaunanna afhent, en þau hlaut Laufey Lín Jónsdóttir tónlistarkona fyrir störf sín á alþjóðavettvangi.
Í þakkarræðu sinni sagði Guðmundur Fertram að fyrirtæki eins og Kerecis spryttu ekki upp úr engu, heldur þyrftu réttu aðstæðurnar til – menntakerfi með áherslu á náttúruvísindi og iðnmenntun, öflugt atvinnulíf og hvetjandi stuðningskerfi hins opinbera.
„Við getum tryggt að ævintýrið haldið áfram, en þá þarf að hlúa að atvinnugreinunum með aðlögun regluverks og frekari fjárfestingu í innviðum og menntakerfi. Þannig munum við styrkja og skapa nýja skattstofna sem fleyta munu Íslandi inn í framtíðina og gefa börnum okkar sömu eða betri lífskjör en við njótum í dag,“ sagði hann jafnframt.
Í sínu ávarpi sínu lagði forseti Íslands áherslu á mikilvægi nýsköpunar sem stuðlaði að framförum og aflaði mikilvægra útflutningstekna fyrir samfélagið. Raunar væri Ísland ótæmandi uppspretta góðra hugmynda á því sviði og útflutningsverðlaunin væru í senn viðurkenning fyrir góðan árangur og hvatning til annarra.
Kerecis hefur frá árinu 2016 framleitt og selt sáraroð sem notað er við meðferð þrálátra sára til dæmis vegna sykursýki, brunasára og annarra þrálátra sára. Hugmyndin þótti frumleg á sínum tíma en fékk góðar viðtökur heima fyrir þar sem Kerecis hlaut Nýsköpunarverðlaun Vestfjarða árið 2009.
Árið 2016 voru tekjur fyrirtækisins um hálf milljón dollara og hafa þær tvöfaldast á hverju ári síðan þá. Árið 2023 námu tekjurnar 110 milljónum dollara, sem eru um 15 milljarðar króna, og starfsmenn fyrirtækisins voru í lok síðasta árs um 600 talsins.