Forsvarskonur verkefnis Arion banka, ,,Konur fjárfestum - vertu með”, skelltu sér til Kaupmannahafnar á dögunum og héldu frábært erindi fyrir íslenskar konur í Danmörku. 

Snædís Ögn Flosadóttir forstöðumaður á mörkuðum Arion banka kynnti tilurð verkefnisins og þau jákvæðu áhrif sem verkefnið hefur haft í för með sér. Þá fór Snædís einnig yfir helstu atriði sem snúa að því að stíga sín fyrstu skref í fjárfestingum og stöðuna almennt á fjármálamörkuðum um þessar mundir. Með henni í för voru Guðrún Ólöf Hrafnsdóttir og Eva Rún Eiðsdóttir frá markaðs- og þjónustuþróun Arion banka.

Viðburðurinn var afar vel sóttur og stemningin frábær enda fjölbreyttur hópur kvenna samankominn í Jónshúsi til að hlýða á afar fróðlegt og skemmtilegt erindi Snædísar. Boðið var upp á léttar veitingar og tengslamyndun að erindinu loknu og augljóst var að konur í Kaupmannahöfn kunnu vel að meta fræðslu af þessu tagi.

Félag kvenna í atvinnulífinu í Danmörku býður íslenskum konum upp á faglegan vettvang til tengslamyndunar og innblásturs, þar sem styrkur og hvatning er í hávegum höfð.

Haldnir eru 6-8 viðburði á ári sem eru opnir öllum þeim sem hafa áhuga á að koma og kynna sér það sem boðið er upp á hverju sinni. Annað hvert ár er haldin ráðstefna og þá eru hvatningarverðlaun veitt þeirri konu sem þykir hafa skarað fram úr í dönsku atvinnulífi. Þá heldur félagið úti hlaðvarpinu ,,Damerne først" ásamt því að sýna frá daglegu lífi íslenskra kvenna á dönskum vinnumarkaði á Instagram undir myllumerkinu #filterslausvinnudagur.