Heilbrigðistæknifyrirtækið Helix hélt lokahóf fyrir 12 háskólanema sem voru að ljúka starfsnámi hjá fyrirtækinu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sótti hófið og ávarpaði nemana.


Í tilkynningu segir að Áslaug Arna hafi talað um mikilvægi þess að auka samvinnu milli háskólanna og atvinnulífsins.

„Samvinna milli menntastofnana og atvinnulífs er lykillinn að því að tryggja að nemendur öðlist þá færni sem nauðsynleg er í nútímasamfélagi. Það gleður mig að sjá nemendur fá tækifæri til að vinna að raunverulegum verkefnum og öðlast dýrmæta reynslu. Þessi reynsla mun ekki aðeins nýtast þeim í framtíðinni heldur einnig styrkja atvinnulífið og samfélagið í heild,“ segir Áslaug Arna.

Starfsnemarnir komu úr tölvunarfræði, hugbúnaðarverkfræði og stafrænni heilbrigðistækni við Háskólann í Reykjavík sem og hagfræðideild Háskóla Íslands. Hjá Helix tóku þau þátt í fjölbreyttum verkefnum og á borð við: Uppfærslu á hugbúnaðarlausninni Deildarvaki og rannsókn á smáforritinu Iðunn og rannsókn á því hvernig gervigreind nýtist til að hagnýta gögn í Sögu sjúkraskrá.

Arna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Helix segir að samstarf háskóla og atvinnulífs sé mikilvægt til að undirbúa nemendur fyrir vinnumarkaðinn að loknu námi. Hún segir að þróun í tæknigeiranum sé hröð og því nauðsynlegt sé að búa til þekkingarmenningu þar sem lykillinn að velgengni sé stöðugur lærdómur.

„Samstarf við háskóla og menntastofnanir gegna stóru hlutverki í að byggja upp þessa menningu innan fyrirtækja. Þegar við fáum nemendur í starfsnám, þá erum við ekki aðeins að gefa þeim innsýn í atvinnulífið; við erum fá inn ferska strauma. Spurningar þeirra og hugmyndir ögra okkur til að hugsa hlutina upp á nýtt og kanna nýja möguleika.“, segir Arna.