Það hefur heldur betur dregið til tíðinda í kjarasamningsviðræðum í desembermánuði. Í byrjun mánaðar var greint frá því að kjarasamningar Starfsgreinasambandsins (SGS) og Samtaka atvinnulífsins (SA) væru í höfn. Rúmri viku síðar náðust svo samningar milli SA og VR, LÍV og samflots iðnaðar- og tæknifólks. Því hefur verið gengið frá samningum við öll aðildarfélög SGS (fyrir utan Eflingu), VR, LÍV og stéttarfélög iðn- og tæknifólks. Samningarnir gilda allir frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024.

Niðurstaða atkvæðagreiðslu um kjarasamninga SGS félaganna mun liggja fyrir 19. desember og þann 21. desember vegna samninga VR, LÍV og iðn- og tæknifólks. Ekki verður greitt eftir samningunum fyrr en niðurstaða liggur fyrir. Allir samningarnir eiga það sameiginlegt að hagvaxtarauki, sem koma átti til greiðslu vorið 2023, er innifalinn um í umsaminni hækkun 1. nóvember 2022.

Sigurður R. Ragnarsson, stjórnarmaður Samtaka iðnaðarins, Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, Rannveig Rist, stjórnarmaður Samáls, og Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins. Þau eiga öll sæti í framkvæmdastjórn SA.
© BIG (VB MYND/BIG)
Forsvarsmenn VR, LÍV og samflots iðnaðar- og tæknifólks rita undir kjarasamningana. Miðað við svipbrigði Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, og ummæli hans í fjölmiðlum um samningana er hann ekki nægilega sáttur með þá.
© BIG (VB MYND/BIG)
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, undirrita samningana. Þær sitja í framkvæmdastjórn SA.
© BIG (VB MYND/BIG)
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari stóð upp og hélt tölu fyrir viðstadda í Karphúsinu eftir að ritað hafði verið undir kjarasamningana.
© BIG (VB MYND/BIG)
Forsvarsmenn VR, LÍV og samflots iðnaðar- og tæknifólks og Samtaka atvinnulífsins stilltu sér upp ásamt ríkissáttasemjara að fundi loknum. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, lét sig þó hverfa af vettvangi.
© BIG (VB MYND/BIG)
Líkt og hefð er fyrir voru bakaðar vöfflur í Karphúsinu er samningar voru í höfn. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, gæddu sér á vöfflunum og líkaði vel af svip þeirra að dæma.
© BIG (VB MYND/BIG)