Sendiherra Danmerkur á Íslandi, Kirsten Rosenvold Geelan, hélt viðburð í samvinnu við FKA í sendiráðinu á Kvenréttindadaginn.

„Kynjajafnrétti hefst á inngildandi starfsháttum og samstöðu allra,“ sagði sendiherrann á viðburður í samstarfi við danska sendiráðið á Íslandi og FKA þar sem Tanya Zharov, Stella Samúelsdóttir og Grace Achieng voru með erindi.

„Það gleður mig að hafa skipulagt mikilvægan viðburð í samstarfi við danska sendiherrann, Kirsten Geelan, danska sendiráðið á Íslandi og FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA til að fagna merkiskonunni Bodil Begtrup og Kvenréttindadeginum 19. júní,“ segir stjórnarkona FKA Grace Achieng stofnandi & framkvæmdastjóri Gracelandic.

„Fjölbreytileikinn er mikilvægur í sjálfbærum heimi og á Kvenréttindadeginum 19. júní síðast liðnum var heldur betur góður dagur til að minna okkur á að jafnréttismál eru samfélagsmál og mál okkar allra,“ segir í tilkynningu.

Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech var með erindi sem minnti á mikilvægi fyrirmynda „Empowering Economies through Gender Equality“.

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women Iceland, lagði áherslu á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs kvenna „The Imperative to Invest in Women - Where are we at?“

Grace Achieng var þá með erindið „Embracing Equity for gender Equality: Migrant perspective“.

„Í ræðu minni fékk ég tækifæri til þess að tala um mikilvægi ,,tungumálalegrar inngildingar“ fyrir jafnrétti og inngildingu innflytjendakvenna og jaðarsettra hópa á íslenskum vinnumarkaði og í samfélaginu sem var efni B.A.-ritgerðar minnar „Tungumálainngilding og íslenskukennsla fyrir innflytjendur á vinnumarkaði“,“ segir Grace.

Geelan sendiherra undirstrikaði þörfina á alþjóðlegu samstarfi í kynjajafnréttisbaráttunni og að kynjajafnrétti næst ekki ef haldið er aftur af sumum okkar. „Saman getum við brotið niður múra og verið komandi kynslóðum fyrirmyndir. Kynjajafnrétti hefst á inngildandi starfsháttum og samstöðu allra kvenna og karla.“