Stórhýsi í Regent's Park í London hefur verið selt á 139 milljónir punda, eða sem nemur 24 milljörðum króna. Um er að ræða næst dýrasta hús í sögu London.

Kaupandinn er félag skráð í Lúxemborg. Leynd hvílir hins vegar yfir hver er endanlegur eigandi félagsins, að því er segir í Financial Times.

Stórhýsið, sem var áður í eigu meðlims konungsfjölskyldunnar í Sádi-Arabíu, var sett á sölu fyrir tveimur árum síðan eftir að 150 milljóna punda lán, sem var veitt með veði í húsinu auk annara eigna á borð við íbúð í New York og einkaþotu, fór í vanskil.

Fasteignasalar sem sáu um söluna vonuðust upphaflega eftir að setrið myndi fara á allt að 250 milljónir punda, eða um 43 milljarða króna.

Viðmælandi FT sem starfar á fasteignamarkaðnum í London segir að eignir sem þessar séu sjaldséðar á markaðnum. Það sé einstakt að sjá mikilfenglegt hús á 1,6 hektara lóð í Regent's Park auglýsta tilsöla. Hún bætir við að þetta sé ekki hús fyrir kaupendur sem vilja halda sér utan sviðsljóssins.

Dýrasta hús Lundúna er 45 herbergja stórhýsið að 2-8a Rutland Gate við Hyde Park sem var selt af Sultan bin Abdulaziz, fyrrum krónprins Sádi-Arabíu, til Hui Ka Yan, sem var um tíma ríkasti maður Kína, fyrir 210 milljónir punda, eða sem nemur 34 milljörðum króna, í ársbyrjun 2020.