Inga Tinna Sigurðardóttir hefur á síðustu árum skipað sér í fremstu röð frumkvöðla á Íslandi. Hún útskrifaðist úr verkfræði árið 2010 og hóf starfsferil sinn í eignastýringu og vöruþróun hjá Arion banka. Hún hefur alltaf haft mikla ástríðu fyrir nýsköpun og lausnum sem gera rekstur skilvirkari, en það var árið 2015 sem hún steig sín fyrstu skref í eigin rekstri með Icelandic Coupons. Í kjölfarið kviknaði hugmyndin að markaðstorginu Dineout. Nú hefur hún sett á laggirnar sitt nýjasta verkefni, Sinna.is, sem sameinar hugvit og tækni til að bæta þjónustugeirann.

Sinna.is er nýtt markaðstorg undir fyrirtækinu Dineout, sem hefur yfirskriftina: heilsa, útlit og vellíðan. Við vildum hafa sterkan fókus á því sem við vorum að gera, alveg eins og með Dineout. Þarna ætlum við að hafa þennan ramma til staðar,“ segir Inga Tinna Sigurðardóttir.

Sinna.is er þróað með það að markmiði að búa til sérhæfðan vettvang fyrir þjónustuaðila í heilsu- og fegrunargeiranum. „Við erum með sterka reynslu úr veitingarekstri og höfum lært mikið um hvernig á að tengja viðskiptavini við þjónustuaðila á skilvirkan hátt. Okkur fannst vanta svipaðan vettvang fyrir aðra þjónustugeira þar sem fólk gæti auðveldlega fundið sérhæfða þjónustu sem hentar þeim.“

Markmiðið með Sinna.is er ekki aðeins að auka sýnileika þjónustuaðila heldur líka að einfalda ferlið fyrir viðskiptavini þeirra. „Við viljum að þetta verði fyrsta stopp hjá fólki sem leitar að fagfólki í þessum geira. Hvort sem það er hárgreiðslustofa, einkaþjálfari eða nuddari, þá á þetta að virka sem tenging á milli þeirra sem veita þjónustu og þeirra sem þurfa á henni að halda.“

Ljósmynd: Marínó Flóvent

ÍSLENSKT HUGVIT Á HEIMSMÆLIKVARÐA

Inga Tinna segir að hugbúnaðurinn sem liggur að baki Sinna.is sé þróaður af teymi hennar og sé einstakur. „Við höfum þróað 16 mismunandi hugbúnaðarlausnir alveg frá grunni. Það eru mjög margir sem halda að við höfum bara gert borðabókunarkerfi, sem er út af fyrir sig algjört afrek af því að það þarf margra ára þróun til þess að höfða til allra þarfa veitingageirans.“

Þegar heimsfaraldurinn skall á var ljóst að borðabókunarkerfi dygðu ekki lengur sem eina afurðin. „Þá hófumst við handa og þróuðum öll þessi aukakerfi, eins og matarpöntunarkerfi, kassakerfi, stimpilklukku, sjálfvirkar vefsíður og rafræn gjafabréf. Allar vörurnar eru einstakar en það er hægt að nota þær allar saman.“

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa, en veltan hefur tvöfaldast á hverju ári síðustu ár og fjöldi viðskiptavina sem nota hugbúnaðarlausnirnar er tæplega 600 talsins. „Allar tekjur hafa farið í rekstur. Við höfum líka fengið styrk frá Rannís sem var ómetanlegur og spilaði stórt hlutverk í því að félagið er á þeim stað sem það er á í dag.“

Það sem gerir kerfið einstakt er hversu samfellt það er í notkun. „Það sem sker okkur frá öllum öðrum, ekki bara hérlendis heldur erlendis líka, er að allar okkar vörur eru aðgengilegar í gegnum einn bakenda og það er algjörlega byltingarkennt í þessum heimi. Öll kerfi tala saman og allt uppfærist samtímis. Þetta straumlínulagar algjörlega reksturinn og er einsdæmi í þessum bransa, að minnsta kosti svo ég viti til.“

Ljósmynd: Marínó Flóvent

VIÐTÖKURNAR FARIÐ FRAM ÚR BJÖRTUSTU VONUM

„Þessi þróun hefur tekið sjö ár og markmiðinu um að þróa 360 gráðu heildræna lausn hefur verið náð. Núna gengur þetta út á að selja vörurnar, viðhalda þeim og skala. Fyrsta skölunin er þjónustugeirinn þar sem við erum að nota þessar vörur sem við erum búin að þróa í mörg ár og aðlaga þær að þessum geira. Starfsfólkið er ómetanlegt og forritararnir sem eru sjö talsins eru á heimsmælikvarða – allt aðilar sem þurfti að hafa fyrir að ná til okkar í teymið.

Við aðhyllumst það að vera færri og tefla á gæðin. “ „Við erum nú þegar komin í samstarf með 60 fyrirtækjum og einstaklingum og síðast þegar ég vissi þá voru 43 á bið að komast inn á torgið. Eftirspurnin hefur farið fram úr okkar björtustu vonum. Þetta eru allt frá hárgreiðslustofum og einkaþjálfurum til ljósmyndara og fyrirlesara. Fyrirtæki og mannauðsstjórar eiga líka að geta farið inn á síðuna og fundið eitthvað sem nýtist hjá þeim.“

Sinna.is notar einnig gervigreind til að auðvelda notendum leit að þjónustu. „Ef einhver leitar að þjónustu fær hann upp alla þjónustuaðilana sem veita hana, ásamt næstu lausu tímum þeirra. Það þýðir að fólk getur bókað þjónustu á einfaldari og hraðari hátt en áður.“

Ljósmynd: Marínó Flóvent

AÐ BYGGJA UPP FYRIRTÆKI OG FJÖLSKYLDU SAMTÍMIS

Á síðasta ári eignaðist Inga Tinna sitt fyrsta barn, á sama tíma og hún var á lokasprettinum í þróun Sinna.is og undirbúningi kynningar á nýju vörunni. Að halda utan um ört vaxandi fyrirtæki og nýtt foreldrahlutverk viðurkennir Inga Tinna að hafi vissulega verið krefjandi.

„Maður getur aldrei séð fyrir nákvæmlega hvernig hlutirnir munu þróast og þegar maður er í rekstri þá er ekkert hægt að setja hann á bið. Það sem hefur hjálpað mér mikið í þessu er hvað dóttir mín er vær og góð. Svo er ég líka með frábært stuðningsnet, foreldrar mínir hafa hjálpað mér mikið og kærastinn minn er sjálfstætt starfandi og hann tók þá ákvörðun að taka því hlutverki fyrir okkur bæði á meðan það er svona mikið að gera hjá mér í smá tíma.“

Inga Tinna segir að hún hafi sjálf ákveðið að fresta barneignum þar til hún hafði náð ákveðnum markmiðum í rekstri. „Ég tók svona þokkalega upplýsta ákvörðun að fresta barneignum af því að mig langaði að feta þessa leið. En ég vil aldrei draga úr ungum konum sem eru kannski komnar með börn og vilja feta þessa leið. Þetta er ekki svart og hvítt, fólk er með mismikinn stuðning og svo eru börn líka bara alls konar.“

Hún hefur unnið mikið að því að samræma vinnu og fjölskyldulíf með sveigjanlegum lausnum. „Ég er búin að vera með hana uppi í vinnu hjá mér í vagni og gef henni að drekka hér, svo tekur pabbi hennar við og ég fer svo aftur upp í vinnu á kvöldin. En ég byrjaði að vinna þegar hún var tveggja mánaða.“ Hún er þó á því að engin ein leið sé rétt og að stuðningsnet skipti sköpum. „Ég hef alltaf verið þannig að ég brenn fyrir því að hvetja aðrar konur að feta þá leið að fara í eigin rekstur og láta til sín taka. Það er ekkert sem er þess eðlis að þurfa að hamla okkur.“

AÐ VERA KONA Í KARLÆGUM BRANSA

Nýsköpunar- og hugbúnaðargeirinn hefur í gegnum tíðina verið karllægara umhverfi, en Inga hefur ekki látið það stoppa sig. Hún segir það hafa verið bæði áskorun og hvatningu að sanna sig í þessum bransa, og að hún hafi alltaf viljað vera hún sjálf í öllu sem hún gerir.

„Ég hef alltaf bæði verið strákastelpa og stelpustelpa, alltaf elskað kjóla og vera í litum og mér finnst alveg nauðsynlegt að mega fara út fyrir rammann. En ég fann alveg fyrir því í byrjun að maður þurfti að hafa fyrir því að sannfæra veitingastaði um nýja hugmynd sem ekki hafi verið orðin að veruleika. Og vera í þokkabót kona að tala um hugbúnaðarlausnir. Ég held þó að þeir aðilar hafi fljótt séð að mér var meira en alvara.

Þegar ég fór þessa leið að fara í eigin rekstur þá held ég að það hafi komið sér að góðum notum hversu svakalega þrjósk ég er og með mikið keppnisskap. Ég hef að mér er sagt, verið þannig frá því að ég var lítil og nei gefur mér eiginlega bara meiri kraft. Ég þrífst á áskorunum og ef einhver segir mér að eitthvað sé ekki hægt þá fæ ég aukinn kraft til að sanna það fyrir sjálfri mér og öðrum að það sé allt hægt.“

Eitt dæmi um þrautseigju hennar átti sér stað á háskólaárunum. „Ég rakst á gamlan kennara minn um daginn sem rifjaði upp fyrir mér hvernig ég brást við þegar hann gaf það út í fyrsta tímanum að það hefði enginn fengið yfir níu alla þá tíð sem hann hafði kennt áfangann. Þá gerðist eitthvað innra með mér og ég var ekki til í það að það væri einhver að segja mér að ég væri ekki að fara að fá yfir níu. Ég tók þessu mjög alvarlega og endaði með að fá 9,5 og það eina sem ég var að velta fyrir mér var af hverju ég fékk ekki tíu,“ segir Inga Tinna og hlær.

Hún viðurkennir að hugbúnaðargeirinn sé mjög karlægur, en tekur því ekki sem hindrun heldur áskorun. „Nýsköpunargeirinn og fyrirtækjarekstur eru líka að megninu til karlar þó að blessunarlega það sé að breytast.“

Ljósmynd: Marínó Flóvent

INNSÆI OG RÉTTUR STUÐNINGUR

Að hlusta á innsæið hefur reynst lykilatriði í hennar vegferð. „Það hafa komið margir inn í ferlið með sterkar skoðanir, en á endanum snýst þetta um að hlusta á innsæið sitt og vera samkvæmur sjálfum sér.“ Inga Tinna leggur mikla áherslu á þá sem standa með henni í þessari vegferð. „Bróðir minn, Magnús Björn Sigurðsson, er meðstofnandi minn og CTO hjá bæði Dineout og Sinna.is. Ég gæti þetta ekki án hans. Hann er lykilmaður í að þróa allar þessar lausnir.“

Einnig segir hún fjölskyldu sína skipa stórt hlutverk í þessu öllu. „Foreldrar mínir hafa alltaf stutt mig ómetanlega, og það er ekki ofsögum sagt að þetta sé hálfgerður fjölskyldurekstur. Mamma og pabbi hafa verið mér stoð og stytta í þessu ferli.“

Eftir mörg ár í rekstri er hún róleg gagnvart öllum áskorunum. „Það kemur ekkert lengur á óvart, og ég veit að við erum að byggja upp eitthvað frábært.“ Hún leggur áherslu á að umvefja sig réttu fólki og vernda orkuna sína. „Maður getur ekki verið allt fyrir alla – þá endar maður á því að vera ekki neitt fyrir neinn.“

Á síðasta ári hlaut Inga Tinna hvatningarverðlaun Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), sem staðfestir það sem hún hefur náð að byggja upp. „Ég hef alltaf brunnið fyrir því að hvetja konur til að fara í eigin rekstur og láta til sín taka. Það er ekkert sem ætti að hamla okkur – það snýst um að hafa trú á sér, halda fókus og gefast aldrei upp.“