Nanna Kristjana Traustadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ásbrú, undirritaði samstarfssamning við Stefán Þór Björnsson, fjármálastjóra Solid Clouds, þann 18. júní síðastliðinn og mun hann taka gildi frá næstu mánaðamótum. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.
Samningurinn felur það í sér að fimm nemendum við skólann verði úthlutað aðstöðu og tölvubúnaði sem hluta af verklegri kennslu þeirra. Samstarfið mun veita nemendum innsýn í hönnun fjölspilunar herkænskuleikja og bæði auka fjölbreytileika og styðja við gæði náms skólans.
Solid Clouds vinnur að gerð tölvuleiksins Starborne sem snýst um uppbyggingu stórvelda í geimnum, þar sem leikmenn vinna ýmist saman eða keppa hver á móti öðrum. Aðaláhersla leikjahönnuninnar felst í korti sem byggir á byltingarkenndri tækni og dregur fram valmöguleika leikmanna á því sem þeir geta áorkað innan leiksins.
Stefán Þór segir um samstarfið:
„Solid Clouds er metnaðarfullt tölvuleikjafyrirtæki sem vill leggja sitt af mörkum til að styðja við framgang íslensk tölvuleikjaiðnaðar. Menntaskólinn á Ásbrú hefur unnið einstakt starf varðandi það að þjálfa upp næstu kynslóð íslenskra leikjasmiða og er mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að styðja við það góða starf sem fer fram innan veggja skólans.“
Menntaskólinn á Ásbrú leggur ríka áherslu á afeinangrun kennslustofunnar og áhersla er sett á að skapa áhugaverð og raunhæf verkefni fyrir nemendur, hvar sem þeir eru staddir á námsferlinum. Á síðustu vorönn hönnuðu nemendur við skólann tölvuleiki fyrir barnahorn Keflavíkurflugvallar í samstarfi við Isavia og næsta vetur mun sami hópur vinna verkefni með tölvuleikjaframleiðendunum CCP og Myrkur Games.
„Áhugahvöt í námi skipti gríðarlegu máli og í MÁ vitum við að að til þess að efla áhuga nemenda þarf að tengja námið við raunveruleg verkefni í atvinnulífinu. Fyrirtæki í hugverkaiðnaði hafa veitt okkur góð viðbrögð varðandi samstarf sem sýnir að bransinn styður við íslensk ungmenni í tölvuleikjagerð“, segir Nanna Kristjana.
Nemendur munu njóta góðs af samstarfinu strax í sumar, en samningurinn tekur gildi frá og með næstu mánaðarmótum. Solid Clouds tóku á móti fyrsta nemanum í starfsnámi í upphafi sumars.