Þyrluskíðaferðir hafa sífellt meira verið að ryðja sér til rúms hér á landi undanfarin ár. Fyrst um sinn voru það aðallega erlendir ferðamenn sem sóttu í slíkar ferðir en eftir að COVID-19 faraldurinn lamaði nær alveg millilandaflug fóru Íslendingar að sækja í þyrluskíðaferðir í auknum mæli. Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst bjóða fimm ferðaþjónustufyrirtæki upp á þyrluskíðaferðir og hér að neðan verða þau, eitt af öðru, kynnt til leiks. Fjallað er um málið í sérblaðinu Ferðalög & útvist , sem fylgdi Viðskiptablaðinu og er opið öllum til lestrar.
Arctic Heli Skiing
Fjallaleiðsögumaðurinn Jökull Bergmann á og rekur félagið Bergmenn ehf. og er Arctic Heli Skiing ein af þeim fjölmörgu ferðum sem fyrirtækið býður upp á. Bergmenn, sem er með aðsetur á Dalvík, hafa um árabil sérhæft sig í fjallaskíðaferðum á Tröllaskaga. Samkvæmt heimasíðu félagsins hefst þyrluskíðavertíðin um miðjan febrúar og endist fram í lok júní í hefðbundnu árferði. Þá er því lýst sem einstakri upplifun að skíða af hæstu tindum Tröllaskagans alveg niður í svartar sandfjörur í miðnætursólinni. Starfsemi félagsins teygir sig einnig út fyrir landsteinana þar sem það býður upp á þyrluskíðaferðir á Grænlandi og í Lapplandi í Svíþjóð.
Viking Heliskiing
Viking Heliskiing sérhæfir sig, rétt eins og Arctic Heli Skiing, í þyrluskíðaferðum á Tröllaskaga á Norðurlandi og er með aðsetur á Siglufirði. Stofnendur og eigendur ferðaþjónustufyrirtækisins eru Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, fyrrverandi landsliðsmenn á skíðum en báðir hafa þeir keppt fyrir hönd Íslands á vetrarólympíuleikum. Saman eiga þeir félagar einnig félagið Scandic Mountain Guides sem býður upp á fjallaskíðaferðir á Norðurlandi. Auk þess standa þeir nú, ásamt erlendum fjárfestum, fyrir byggingu 5.500 fermetra lúxushótels við Grenivík í Eyjafirði. Stefnt er á að hótelið, sem mun rísa fyrir ofan 50 metra háan klettavegg á Þengilhöfða, verði opnað í árslok 2022 og verður sérstök áhersla lögð á afþreyingar ferðamennsku fyrir hótelgesti, þar á meðal þyrluskíðaferðir.
Eleven Experience
Bandaríska ferðaþjónustufyrirtækið Eleven Experience, sem rekur lúxushótelið Deplar Farm í Fljótunum á Tröllaskaga, býður gestum sínum upp á möguleikann á að skella sér í þyrluskíðaferðir á Tröllaskaga. Bandaríska ferðaþjónustufyrirtækið, sem leggur áherslu á útivistartengda afþreyingu, rekur lúxusgististaði víða um heim, m.a. í frönsku Ölpunum, Patagóníu í Chile og Klettafjöllunum í Colorado í Bandaríkjunum. Síðastliðið haust var greint frá því að rekstraraðilar hefðu þurft að loka hótelinu á Tröllaskaga tímabundið, þar sem ekki fékkst leyfi til að taka á móti ferðamönnum sem gætu þá dvalið í sóttkví á staðnum. Deplar Farm hefur vakið athygli utan landsteinanna og hefur hótelið m.a. verið valið í hóp bestu lúxushótela heims og meðal flottustu hótela Evrópu.
Heli Austria
Austurríska fyrirtækið Heli Austria hefur verið starfandi í tæplega fjóra áratugi og hóf starfsemi á Íslandi í byrjun árs 2019. Líkt og nafn félagsins ber með sér leggur það áherslu á ýmiss konar þyrluþjónustu, auk þess að einblína á svokallaða lúxusferðamenn. Sem dæmi stendur viðskiptavinum félagsins til boða að fá afnot af þyrlu meðan þeir sigla í kringum landið á snekkju. Í viðtali við Viðskiptablaðið síðasta sumar sagði Þórunn Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heli Austria Iceland, að þyrluskíðaferðir félagsins hefðu verið mjög vinsælar. „Það hefur verið gott færi á skíðum fyrir norðan og gestir eru að nýta sér þetta grimmt," sagði hún.
Summit Heliskiing
Síðasta félagið sem kynnt er til leiks og býður upp á þyrluskíðaferðir, er jafnframt það nýjasta. Summit Heliskiing sérhæfir sig í þyrlu- og fjallaskíðaferðum á Tröllaskaga í samstarfi við Norðurflug. Eigendur Summit Heliskiing eru tvenn hjón; Jóhann Friðrik Haraldsson og Bryndís Haraldsdóttir, og Arnar Þór Árnason og Ólöf Ýrr Atladóttir. Þau síðarnefndu eru jafnframt eigendur Sóta Travel og Sóta Lodge, en Sóti Lodge býður viðskiptavinum upp á gistingu í Fljótum á Tröllaskaga. Í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðið þar sem Summit Heliskiing var kynnt til leiks sagði Jóhann Friðrik, sem er framkvæmdastjóri félagsins, að formlegur rekstur þess myndi hefjast í vor.
Nánar er fjallað um málið í Ferðalög & útivist, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Hægt er að nálgast blaðið hér .