Sjaldan hafa jafnmörg tækifæri gefist til samverustunda fjölskyldna og náinna vinahópa eins og á þessu ári og hafa því eflaust margir gripið til spila til að hrista fólkið sitt saman og eiga saman góða stund. Eflaust eru þó einhverjir orðnir leiðir á gömlu spilunum sem fundust upp í hillu og er því ekki úr vegi að skoða ný spil, og endurútgefna klassík, sem verða á boðstólunum fyrir komandi jól.
Kjaftæði
Kjaftæði er nýtt fjölskyldu- og partýspil þar sem tveir (eða fleiri) eru saman í liði og reyna að giska á hverja af þeim 400 setningum sem eru í spilinu liðsfélagi þeirra er að reyna að segja. Til þess að gera það erfiðara, og hlægilegra, er viðkomandi með þar til gerðan munngóm upp í sér sem ætlað er að láta einföldustu orð hljóma eins og dulkóðað hrognamál.
- Fjöldi: 2-8 lið
- Aldur: 10 ára og eldri
- Spilunartími: 15-30 mínútur
Pictures
Spil ársins í Þýskalandi, Spiel des Jahres, eru ein eftirsóttustu verðlaunin í spilaheiminum en í ár var eins konar myndagetraun sigurvegarinn. Eiga leikmenn að safna stigum með því að endurgera ljósmynd sem mótspilarar verða svo að geta þekkt úr öðrum myndum sem hinir leikmennirnir setja saman. Til þess er notaður ýmiss konar skrýtinn efniviður eins og skóreimar, litaðir kubbar, steinar og fleira, svo verkefnið þarfnast töluverðrar abstrakt hugsunar.
- Fjöldi: 3-5 leikmenn
- Aldur: 8 ára og eldri
- Spilunartími: 20-30 mínútur
Hættuspilið
Endurútgáfu Hættuspilsins frá 1998 fagna væntanlega margir enda var spilið nægilega vinsælt til að fjármagna upphaf tölvuleikjafyrirtækisins sem síðar varð CCP. Spilið fjallar um hið venjulega lífshlaup þar sem takmarkið er að ná sem mestum þroska og forðast þær hættur sem í því felst. Var spilið einmitt hannað í samstarfi við SÁÁ og fleiri með skýrum forvarnaskilaboðum í gegnum spilakerfið sjálft í stað áróðurs.
- Fjöldi: 2-6 leikmenn
- Aldur: 12 ára og eldri
- Spilunartími: u.þ.b. 60 mínútur
My City
Meðal tilnefninga til þýsku borðspilaverðlaunanna í ár var borgarskipulagsspilið My City sem telst til svokallaðra arfleifðarspila, þar sem hver leikur hefur áhrif á næsta. Einnig er hægt að spila útgáfu þar sem hver leikur er sjálfstæður svo spilið endist. Leikmenn þurfa að raða mismunandi löguðum húsum og landslagi á spjaldið þannig að þau komist vel fyrir sem getur verið miserfitt eftir því hvernig fyrri húsum var raðað.
- Fjöldi: 2-4 leikmenn
- Aldur: 10 ára og eldri
- Spilunartími: u.þ.b. 30 mínútur
Útvegsspilið
Margir Íslendingar eiga góðar minningar frá því að hafa spilað Útvegsspilið en það hefur verið ófáanlegt lengi þar til nú. Í endurútgáfu spilsins eru bæði gömlu reglurnar sem og viðbótarreglur fyrir lengra komna sem miða við núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Í spilinu koma leikendur sér upp skipaflota, veiða og vinna afla í vinnslustöðvum og selja á erlenda markaði, og reynir á útsjónarsemi því teningurinn ræður ekki öllu um gang mála.
- Fjöldi: 2-6 leikmenn
- Aldur: 10 ára og eldri
- Spilunartími: 120+ mínútur
Reckless Sloths
Tveir ungir Íslendingar hönnuðu spilið Reckless Sloth sem nú er safnað fyrir útgáfu á, á hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter. Þetta er svokallað spjaldaspil sem snýst um að bjarga letidýrum sem hætt hafa sér niður úr trjánum frá alls konar fáránlegum hættum eins og að vera „Kraminn af núðlum" og „Algerlega umkringdur af maís" með enn fáránlegri tækjum eins og veiðistöng úr taco og gúmmíbangsarigningu, meðan aðrir leikmenn reyna að skemma fyrir.
- Fjöldi: 2-5 leikmenn
- Aldur: Allir aldurshópar
- Spilunartími: 20-25 mínútur
Ship Shape
Bandarísku borðspilaverðlaunin 2020 féllu Ship Shape í skaut í flokki spila fyrir afslappaða leikendur. Spilið, sem er með sjóræningaþema, snýst um að skipta afrakstri ránsferða á milli leikmanna þannig að hver um sig byggi upp sem heppilegasta safn ránsfengs. Bjóða leikmenn í mismunandi löguð spjöld sem henta þeirra safni, þannig að ákveðna útsjónarsemi þarf til og hæfni til að raða saman á sama tíma og reynt er að eyðileggja fyrir hinum.
- Fjöldi: 2-6 leikmenn
- Aldur: 8 ára og eldri
- Spilunartími: 20-40 mínútur
Lortur í lauginni
Blekkingaspil eru jafnan vinsæl, en spilið Lortur í lauginni gerist í alíslensku umhverfi í sundlaug Egilsstaða. Þar reyna sundlaugagestirnir, sem eru ýmsar þekktar staðaltýpur íslenskrar sundlaugamenningar eins og besserwisserinn í heita pottinum, að komast að því hver kúkaði í laugina þeirra með ýmsum aðgerðaspjöldum sem veita þeim viðbótarupplýsingar. Ólíkt sumum blekkingarspilum dettur enginn leikmaður út svo það hentar allri fjölskyldunni og vinahópum í hópefli.
- Fjöldi: 5-7 leikmenn
- Aldur: 14 ára og eldri
- Spilunartími: 15-60 mínútur
Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .