Úra- og skartgripaverslunin Klukkan hefur opnað nýja verslun í Kringlunni. Verslunarrýmið er staðsett beint gegnt Bónus, New Yorker og BOSS búðinni.

Fyrirtækið rekur einnig verslun og verkstæði að Nýbýlavegi 10 í Kópavogi ásamt netverslun. Klukkan segir að með þessu skrefi megi ætla að umfang fyrirtækisins tvöfaldist.

„Að sjá þetta litla fjölskyldufyrirtæki vaxa úr 15 fermetra plássi sem mamma og pabbi stofnuðu í Hamraborginni á sínum tíma í tvær nýjar stórglæsilegar verslanir á Nýbýlavegi og í Kringlunni er ótrúlega skemmtilegt. Viðtökurnar hjá Kringlugestum hafa verið frábærar fyrstu dagana, röð út úr dyrum þegar við opnuðum og helgin var frábær,” segir Hjördís Viðarsdóttir, verslunarstjóri Klukkunnar.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Klukkan er fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var 1979 með kaupum Viðars Haukssonar og Katrínar Stefánsdóttur á lítilli verslun í Hamraborg og hefur starfað sleitulaust síðan í eigu sömu fjölskyldu. Þess má geta að þriðji ættliðurinn stendur nú vaktina undir vökulum augum kynslóðanna á undan í verslununum sem eru nú 3 talsins.

„Það er mikið fagnaðarefni að fá þetta gamalgróna verslunarfyrirtæki í Kringluna, stærstu verslunarmiðstöð landsins. Klukkan er frábær viðbót við þá flóru verslana sem hér er,“ segir Inga Rut Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kringlunnar.

Verslunin er byggð upp í sama stíl og nýja verslun Klukkunnar á Nýbýlavegi en innréttingar eru hannaðar og smíðaðar af þýska framleiðandanum ODS sem hefur meðal annars starfað fyrir merki eins og Casio og Tommy Hilfiger.